139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi gefa hv. þm. Magnúsi Orra Schram tækifæri til að svara, af því að í andsvörum við hv. þm. Einar Guðfinnsson náði hann ekki að svara því hvernig hann telji að meginbreytingin sem felst í þessu frumvarpi, sem lýtur að því að færa vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins, vald til þess að ákveða hvaða ráðuneyti eru starfandi í landinu, rími við niðurstöður þingmannanefndar, því að sú hugmynd, sem er auðvitað stærsta einstaka atriðið í þessu frumvarpi, er hvorki í skýrslu rannsóknarnefndar né skýrslu þingmannanefndar heldur verður til í nefndarstarfi á vegum forsætisráðherra.

Ég vildi spyrja hann út í þetta atriði og ég vildi líka árétta að hér (Forseti hringir.) er um raunverulega breytingu að ræða, eins og meðal annars má lesa um í greinargerð með frumvarpinu.