139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hv. þm. Magnús Orri Schram staðfestir það sem við höfum haldið hér fram í umræðunni, margir, að verið sé að færa forsætisráðherra meiri völd vegna þess að því hefur verið neitað í þessari umræðu. En hv. þm. Magnús Orri Schram skilur þetta greinilega eins og að minnsta kosti ég, að verið sé að færa forsætisráðherra meiri völd.

Allt gott um það að segja hvernig fyrirkomulagið er í ýmsum löndum og það er með mismunandi hætti í mismunandi löndum. Við þurfum hins vegar að spyrja okkur hér: Finnst okkur þingmönnum ástæða til að færa það vald frá Alþingi Íslendinga til ríkisstjórnar? Alþingi er ekki bara þingflokkar ríkisstjórnarflokka, Alþingi er vettvangur fyrir fulltrúa þjóðarinnar sem kjörnir eru úr ýmsum flokkum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Ætlum við að færa þetta vald frá þinginu til ríkisstjórnar og þá einkum forustumanna ríkisstjórnar? (Forseti hringir.) Viljum við auka vald forsætisráðherra, viljum við auka völd Alþingis? (Forseti hringir.) Þetta er spurningin.