139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:36]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn geta að sjálfsögðu snúið út úr orðum mínum að vild og maður getur svo sem ekki haft mikil áhrif á það. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði í fyrra andsvari: Forsætisráðherra er verkstjóri, hann er í forsvari ríkisstjórnar og í stjórnarsáttmála við upphaf áður en menn leggja saman í leiðangurinn er það rammað inn hverjir eru ráðherrar í ríkisstjórn og hver eru verksvið þeirra. Slíkt þarf að sjálfsögðu að fara í gegnum þingflokka þá sem standa að ríkisstjórn, rétt eins og verið hefur hingað til. (Gripið fram í.) Að minnsta kosti var það gert í þeirri ríkisstjórn ég styð og ég hef þá trú að það hafi verið gert áður og hv. þingmaður veit það betur en ég. Um leið erum við að veita verkstjóranum meira vald til að breyta og laga verkefnin að t.d. þeim einstaklingum sem veljast í ríkisstjórn og eru hæfastir til að takast á við málefnin, t.d. að bregðast við breytingum í atvinnulífi eða efnahagslífi þannig (Forseti hringir.) að sameina verksvið ákveðinna ráðuneyta.