139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:40]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra fékk utanaðkomandi aðila til að meta hæfi umsækjenda, þeir fóru í gegnum hæfnismat. Hún kom hvorki að því hvernig það hæfnismat var upp sett né að vinnu nefndarinnar eða utanaðkomandi ráðgjafa, hins vegar fylgdi hún þeim leiðbeiningum sem utanaðkomandi ráðgjafi veitti. Hún var þá um leið vænd um brot á jafnréttislögum, hið leiðinlegasta mál en sýnir bara þær áherslur sem ég hefði viljað leggja í þessum ráðningarmálum öllum. Annars vegar að ráðherra beri ábyrgð á þeim pólitísku aðstoðarmönnum sem hann tekur inn í ráðuneytið, aðrar ráðningar verði t.d. á höndum ráðuneytisstjóra og ráðherra komi ekki nálægt þeim ráðningum, enda sé þar fyrst og fremst um að ræða embættismenn sem muni fylgja og vera til staðar í ráðuneytunum þegar ráðherra víkur úr sínu pólitíska starfi.