139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:44]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem mér fannst eiginlega ekki vera svar. Hv. þingmaður kom inn á að hafa ætti samráð eftir að mál er lagt fram, það ætti að eiga sér stað í þingnefndunum. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu þarf að fara vel yfir mál og ræða þau fram og aftur og breyta þeim í þingnefndum. En er ekki hyggilegra áður en lagt er af stað í þá vegferð að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands að hafa samráð við alla þingmenn, við þingflokkana? Ég vil fá endanlegt svar: Finnst hv. þingmanni betra að það liðið sem ræður — þá er ég að tala um lið eins og fótboltalið og meina það ekki illa — og er við völd á þingi leggi af stað í slíka vegferð án þess að ræða við einn eða neinn og vilji svo samráð og stuð og að allir séu vinir (Forseti hringir.) þegar búið er að ákveða allt?