139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ágæta ræðu og get tekið undir flest, ef ekki allt, sem fram kom í máli hans. Ég vek athygli á því að hv. þm. Atli Gíslason er óvenjugóð heimild um það sem gerðist í þingmannanefndinni á síðasta ári og hvað frá henni kom því að hv. þingmaður var formaður þeirrar nefndar. Það er mjög athyglisvert þegar þingmaðurinn bendir á að meginbreytingin í þessu frumvarpi er í ósamræmi við skýrslu rannsóknarnefndar og niðurstöður þingmannanefndar í veigamiklum þætti. Það er mjög athyglisvert og hlýtur að vera stuðningsmönnum málsins að minnsta kosti eitthvert umhugsunarefni þegar slíkt kemur skýrt fram.

Ég spyr (Forseti hringir.) hv. þingmann varðandi 15. gr. stjórnarskrárinnar (Forseti hringir.) hvort hann telji að núgildandi fyrirkomulag sé á einhvern hátt í andstöðu við 15. gr. stjórnarskrárinnar eins og (Forseti hringir.) lesa má á milli línanna í greinargerð með frumvarpinu.