139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef oft hugsað það þegar lagt er fram frumvarp frá ríkisstjórninni og vísað í þessa þingmannanefnd hvers hún eigi eiginlega að gjalda og hvað hún hafi gert ríkisstjórninni, hvers vegna stöðugt er hengd á þessa þingmannanefnd öll vitleysan sem kemur frá ríkisstjórninni. Nú liggur það fyrir að formaður þingmannanefndarinnar hefur sagt okkur það sem blasir við, að þetta frumvarp er ekki afrakstur af starfi þingmannanefndarinnar, öðru nær. Það atriði sem sagt er að sé veigamesta atriðið í breytingum á stjórnarráðslögunum, þ.e. sú ákvörðun að færa valdið frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins, gengur þvert á þá meginhugmynd sem þingmannanefndin tefldi fram. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hv. þm. Atla Gíslason, formann þingmannanefndarinnar, hvað eiginlega geti verið að baki. Hvaða nauðir ráku til þess að leggja fram frumvarp sem felur í sér gagnstæða (Forseti hringir.) hugmynd við það sem þingmannanefndin lagði fram um stöðu framkvæmdarvaldsins og Alþingis?