139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að taka þessa síðustu mínútu á þeim nótum sem hv. þingmaður lauk máli sínu á, og ég þakka svarið, það er á formfestunni. Í þeirri miklu bók sem frumvarpið er er eingöngu talað um eitt ráðuneyti með heiti, það er forsætisráðuneytið. Ekki er talað um nein önnur ráðuneyti, ekki um utanríkisráðuneyti eða fjármálaráðuneyti eða neitt slíkt heldur bara talað um ráðuneytið, ráðherrann. Telst það til aukinnar formfestu að hafa það ekki skilgreint í lögum hvað ráðuneytin heita, hvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið kallast, hvað utanríkisráðuneytið kallast? Það er öllum ljóst að ný ríkisstjórn getur vitanlega breytt lögum, fækkað eða fjölgað ráðuneytum ef henni sýnist svo. En það er mjög mikilvægt að í lögunum komi fram (Forseti hringir.) að við erum ekki bara með eitt yfirráðuneyti og svo einhver (Forseti hringir.) aukaráðuneyti.