139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu og málefnalega. Hv. þingmaður kom með ýmsa punkta sem voru ræddir í þingmannanefndinni sem fór yfir rannsóknarskýrsluna, það að fundargerðir ríkisstjórnar yrðu opnar, ábyrgð fagráðherra og fleira í þeim dúr.

Hv. þingmaður fjallaði líka um það í ræðu sinni að með þessu frumvarpi væri oddvitaræðið aukið á kostnað valddreifingar. Það er eitt af því sem kom líka fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni sem átti sæti í þessari þingmannanefnd ásamt hv. þingmanni, að þetta frumvarp gengi ekki nægilega langt í þá veru sem þingmannanefndin lagði til og rannsóknarnefnd Alþingis fjallaði um.

Í ljósi þess að það hefur komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra og fleiri að frumvarp þetta byggði á nefndarvinnu og nefndarstörfum samhliða störfum þingmannanefndarinnar og í rauninni áður en hún skilaði af sér spyr ég hvort hv. þingmaður telji þetta frumvarp bregðast með nægilega miklum krafti við því sem þingmannanefndin setti fram. Telur hv. þingmaður ekki þurfa að gera það miklar breytingar á frumvarpinu að það þurfi í rauninni að umbylta því? Er þá ekki eðlilegt að þeir þingmenn sem voru í þingmannanefndinni á sínum tíma komi eitthvað að þeirri vinnu og það verði farið yfir það hvort frumvarpið uppfylli það sem lagt var til af hálfu þingmannanefndarinnar á sínum tíma?