139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:37]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst vil ég svara því að tel ég ekki að þeir þingmenn sem sátu í þingmannanefndinni eigi að koma að þessu frumvarpi á nokkurn hátt. Þeir hafa lokið sínum störfum. Skýrslan liggur fyrir. Hv. allsherjarnefnd og þeir fulltrúar sem þar sitja voru þeir sem greiddu atkvæði með meðal annars þingsályktunartillögu sem fram kemur í þingmannaskýrslunni. Því treysti ég þeim fullvel til að fara yfir, eins og ég sagði í ræðu minni, og skoða þær tillögur sem þingmannanefndin lagði til og bera saman við það sem kemur fram í þessu frumvarpi hæstv. forsætisráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu.

Eins og ég sagði í ræðu minni kemur hér ýmislegt inn á þá þætti sem lagðir eru til. Ég tel að ekki sé nægjanlega langt gengið. Í 7. gr. þar sem rætt er um fundargerðir ríkisstjórnar hefði ég viljað sjá að þær yrðu einfaldlega gerðar opinberar og að til hliðar væri trúnaðarmálabók þar sem skráð væru þau mál sem ríkisstjórnin telur hverju sinni ekki eiga erindi til almennings eða þingmanna. Hún verður þá opinberuð eftir 50, 60, 70 eða 80 ár þannig að menn geta þá lesið sér til um þá sagnfræði.

Ég held að það sé hverri ríkisstjórn hollt að gegnsæi sé meira í störfum hennar, það sé hverju Alþingi hollt að geta fylgst betur með því sem fram fer á ríkisstjórnarfundum og hægt er að lesa út úr fundargerðum. Ég segi enn, virðulegi forseti, að ég óttast þær breytingar sem á að gera, að ekki eigi að nefna í lögum heiti ráðuneytanna og það eigi að fletja út 546 greinar í öðrum lögum þar sem eingöngu stendur orðið ráðherra, en ekki titilheiti þeirra nema í (Forseti hringir.) tilfelli forsætisráðherra.