139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri freistandi að nota þetta andsvar til að fylgja eftir þessari áhugaverðu umræðu um samráð og ekki samráð. Ég held að við hljótum öll að geta tekið undir ákveðna þætti í því sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir um það að stundum verður samráðstalið einhvern veginn gagnrýnislaust og stundum þarf að taka af skarið. Það er rétt sem hún bendir á í því sambandi. Vandinn hins vegar við þetta frumvarp er sá að þarna er gert ráð fyrir valdatilfærslu frá þingi til ríkisstjórnar og frá einstökum ráðherrum til forsætisráðherra þannig að þarna er um að ræða valdasamþjöppun eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Ég spyr hv. þingmann hvort ég hafi ekki skilið það rétt að með þessu sé í rauninni gengið þvert gegn því sem hún og kollegar hennar í þingmannanefndinni lögðu til á síðasta ári.