139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við erum nú á öðrum degi þessarar umræðu, umræðan hefur verið töluvert mikil og aðallega hefur verið mælt hér gegn ákvæðum frumvarpsins. Í ljósi þess vil ég endurtaka það sem ég sagði í 1. umr. að í þeim 27 greinum sem frumvarpið hefur að geyma er auðvitað margt nýtilegt, þannig að það sé sagt hér aftur. Þarna eru ýmsir hlutir, ýmsar tillögur sem ég tel að geti verið til bóta. Það eru ýmis atriði sem við getum kallað smærri atriði sem ég vildi að yrði breytt í þeim ákvæðum, yrðu löguð og hugsanlega skýrð frekar. Við munum takast á við það í allsherjarnefnd og ég á ekki endilega von á því að um þá þætti þurfi að vera mikill ágreiningur.

Hins vegar er hér eitt stórt atriði sem auðvitað veldur öllum ágreiningnum, það lýtur að stöðu ráðuneyta og þeirri meginbreytingu sem felst í þessu frumvarpi að fella úr lögum hvaða ráðuneyti eru til staðar í landinu og jafnframt að það sé lögbundið hvaða verksvið hvert ráðuneyti hefur. Þetta er auðvitað stóra deilumálið í þessu og þetta er það atriði sem ég eins og fleiri í þessari umræðu hef gagnrýnt helst. Ég ætla að rifja það upp að það er vegna þess að ég tel að með því sé verið að færa vald frá Alþingi til ríkisstjórnar, einkum forsætisráðherra, sem ég held að sé ekki heppilegt. Í öðru lagi er verið að færa völd frá einstökum ráðherrum til forsætisráðherra. Ég tel það heldur ekki heppilegt. Ég held að það sé raunveruleg hætta á að frumvarpið leiði til aukins foringjaræðis, að forustumenn stjórnarflokka verði valdameiri en aðrir þingmenn og ráðherrar valdaminni. Í fjórða lagi er augljóslega verið að draga úr formfestu með því að í staðinn fyrir að negla hlutina í stórum dráttum niður í lögum er verið að gefa forsætisráðherra heimild til að taka ákvarðanir í þessum veigamiklu atriðum án aðkomu þingsins. Ég held að þetta sé ljóst.

Þessi atriði eru þess eðlis að ég er nokkuð sannfærður um að það er ekki meiri hluti fyrir þessari breytingu í þinginu. Mér finnst umræðan bæði í gær og í dag hafa leitt það í ljós að það sé ekki meiri hluti fyrir því. Það kann að vera að einhverjir úr stjórnarandstöðuflokkunum geti hugsað sér að styðja þetta mál. Það hefur ekki komið fram Ég hef ekki ástæðu til að ætla það að óreyndu. Svoleiðis hefur gerst og ekkert um það að segja annað en að viðkomandi þingmenn þurfa þá að útskýra þá afstöðu sína. Ég hef enga ástæðu til að ætla að þetta gerist í þessu máli þó að ég nefni það sem fræðilegan möguleika. Ef það gerist ekki, þ.e. ef engir úr stjórnarandstöðuflokkunum koma til með að styðja þetta mál, nær þetta ekki fram að ganga. Svo einfalt er það. Ríkisstjórnin hefur 32 þingmenn að jafnaði á bak við sig eins og staðan er núna, naumasta meiri hluta sem hugsast getur. Fyrir liggur skýr yfirlýsing frá einum ráðherra í ríkisstjórninni að hann muni ekki styðja þetta mál. Þar með er ljóst að a.m.k. þessi veigamikla breyting í frumvarpinu nýtur ekki meirihlutastuðnings á þinginu.

Það leiðir auðvitað til þess sem ég átti samtal um við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson í andsvörum fyrr í dag, hvort ekki sé rétt að taka þess heitu kartöflu eða þetta stóra ágreiningsmál út fyrir sviga, henda því, (Forseti hringir.) og beina kröftum þingsins að því að ræða hin atriðin og reyna að koma þeim í lög með sómasamlegum hætti.