139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, nei, við skulum ætla að enginn vilji illt í þessu efni. En berin eru súr og sporin hræða, miðað við reynslu stjórnarandstöðunnar og landsmanna allra af þessari verklausu ríkisstjórn.

Hæstv. forsætisráðherra hefur hamrað á því í umræðum þessa tvo daga að þetta sé fyrst og fremst gert til þess að flæði sé milli ráðuneyta, að samþættingin sé slík að sameiginlegir málaflokkar geti blandast milli ráðuneyta. Ég sé þetta fyrir mér eins og straumvatn miðað við lýsingar hæstv. forsætisráðherra. Með þessu er raunverulega gefið í skyn að það verði tekið gott og gilt að menn geri eins og hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, þegar hann henti svari hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ruslið og skrifaði sjálfur nýtt svar til ESB, í því ferli sem er í gangi. Ég sé ekki (Forseti hringir.) betur en hægt sé að rökstyðja það með frumvarpi (Forseti hringir.) þessu að hæstv. utanríkisráðherra sé að sinna sínum málum, vegna þess að umsóknin sé á forræði (Forseti hringir.) utanríkisráðuneytisins. Þá er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lægra settur gagnvart honum.