139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það atriði sem ég vildi kannski helst taka upp úr andsvari hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur varðar nákvæmlega það sem snertir formfestu, varnagla í lögum, þó að maður ætli engum illar hugsanir eða ill áform. Við gerum ráð fyrir því að allir reyni að gera sitt besta þó að við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir séum ábyggilega sammála um að sumir séu mistækari en aðrir í þeim efnum. En það er önnur saga.

Varnaglarnir sem við setjum í lög eru hins vegar mikilvægir vegna þess að það getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis. Í þessu máli er fyrst og fremst verið að taka úr einn stóran varnagla í sambandi við breytingar á Stjórnarráðinu, það er sá varnagli sem felst í því að þegar á að breyta (Forseti hringir.) ráðuneytum þarf í dag að fara til þingsins nema í undantekningartilfellum — ef verið er að gera breytingar þarf að fara til þingsins, (Forseti hringir.) fá lagaheimild, sá varnagli er tekinn út með frumvarpinu.