139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst er það til að nefna að það er rétt hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni að tilteknar breytingar voru í farvatninu á síðasta ári, sem við þekkjum; breytingar sem enduðu í því að félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið voru sameinuð í velferðarráðuneyti og samgönguráðuneyti og dómsmálaráðuneyti sameinuð í innanríkisráðuneyti. Það gerðist með lögum frá Alþingi. Sú tillaga sem laut að atvinnuvegaráðuneyti var einfaldlega felld brott úr frumvarpinu í meðförum þingsins af því að ekki var stuðningur við það.

Ég verð að játa að þessi forsaga gerir það að verkum að það frumvarp sem hér er til umræðu hlýtur að tengjast áformum forustu ríkisstjórnarinnar um breytingar á ráðuneytum sem allir þekkja og allir vita um og hafa verið til umræðu. Það eru því tengsl þarna á milli þó að frumvarpið snerti miklu fleiri þætti en bara atvinnuvegaráðuneyti og hugsanlega brottför hæstv. ráðherra Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórn, það snertir auðvitað miklu fleiri þætti. En forsaga málsins og aðdragandi er athyglisverður og þetta frumvarp og breytingar á ráðuneytum — slíkar tillögur og slík umræða verður ekki til í tómarúmi. Það er ákveðin forsaga í þeim efnum. Það litar það hvernig maður les þetta mál og metur það.

Varðandi störf allsherjarnefndar er alveg ljóst að þeir kaflar í skýrslu þingmannanefndar og rannsóknarnefndar sem snerta Stjórnarráðið hljóta að verða skoðaðar vandlega. (Forseti hringir.) (Forseti hringir.) Það hlýtur að verða skoðað mjög vandlega (Forseti hringir.) í meðförum allsherjarnefndar ásamt reyndar (Forseti hringir.) fjöldamörgum öðrum atriðum sem (Forseti hringir.) snerta þetta mál.