139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu og málefnalega. Hún fór vel yfir þetta frumvarp og hvað hún teldi betur mega fara. Eins kom hún inn á ýmislegt sem þingmannanefndin sem fór yfir rannsóknarskýrsluna skilaði frá sér. Af því að hv. þingmaður átti sæti í þeirri nefnd vil ég nefna að þingmannanefndin fór mjög ítarlega yfir málið og fjallaði meðal annars um áfellisdóm yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu, jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum og fleira í þeim dúr.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi hér ákveðna þætti, eins og að opna fundargerðir ríkisstjórnarinnar og fleiri þætti sem þyrfti að fara lengra með í þessu frumvarpi en gert er og heldur en komið hefur fram. Hv. þingmaður komst svo að orði að heilt yfir hefði þingmannanefndin bent á að það þyrfti meiri valddreifingu, meira gegnsæi o.s.frv. Hvernig finnst hv. þingmanni ganga að vinna úr niðurstöðum þingmannanefndarinnar? Erum við á þeim stað sem hv. þingmaður bjóst við að við yrðum á á þessum tímapunkti? Erum við kannski ekki komin nægilega langt? Hvað finnst hv. þingmanni að betur mætti fara? Er þetta frumvarp nægilega mikið skref í þá átt sem þingmannanefndin komst að í skýrslu sinni?