139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Um þá umræðu sem hér hefur staðið núna í tvo daga vil ég hafa þau orð að hún kemur örugglega mörgum þeim sem hlýða á hana spánskt fyrir sjónir, eða spánskt fyrir hlustir kannski réttara sagt, og það ber að hafa í huga að það er með ólíkindum hvernig þetta mál ber að í þinginu. Forsætisráðherra leggur hér fram og mælir fyrir stjórnarfrumvarpi sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra stendur ekki að baki. Þar er ágreiningur uppi. Þegar hæstv. ráðherra var spurður við umræðu hér í gær hvort stuðningur væri á þinginu við það frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra Íslands hér leggur fram veit hæstv. ráðherra það ekki. Ég skal viðurkenna að mér finnst þetta ekki boðleg vinnubrögð. Mér finnst með ólíkindum að þegar verið er að ræða breytingar á Stjórnarráði Íslands, þessari grunnstoð í íslenskri stjórnsýslu, liggi ekki fyrir að það sé meirihlutastuðningur við þær breytingar sem forsætisráðherrann boðar í þinginu. Þetta vinnulag er með ólíkindum og þess vegna er sú umræða sem hér hefur staðið núna í tvo daga með þeim hætti og þeim brag sem hér liggur fyrir.

Þeir sem styðja frumvarp hæstv. ráðherra hafa látið að því liggja að þeir sem mæli gegn frumvarpinu geri það ekki á efnislegum forsendum. Ég vil þó nefna að fremur fáir þingmenn hafa tekið til máls á þeim nótum. Þetta er að mínu mati ómakleg gagnrýni. Það umdeildasta hér hefur verið kallað oddvitaræði og gefið til kynna að hér sé ýtt undir það, það sé verið að búa til kerfi þar sem skipaður er einn yfirráðherra með allt að níu aðstoðarmönnum. Þetta er meginefni þess frumvarps sem hér liggur fyrir samkvæmt greinargerðinni sem fylgir því. Um 2. gr. frumvarpsins segir á bls. 39, með leyfi forseta:

„1. mgr. ákvæðisins felur í sér eina veigamestu breytinguna samkvæmt lögunum. Er lagt til að horfið verði frá þeirri löggjafarstefnu sem við lýði hefur verið allt frá setningu laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, að ráðuneyti séu talin upp með tæmandi hætti í lögunum. Þess í stað er lagt til að ákvörðunarvald um það hvaða ráðuneyti skuli starfrækt verði í höndum stjórnvalda á hverjum tíma.“

Þetta er meginbreytingin sem verið er að gera. Þetta er það sem legið hefur fyrir í umræðunni báða þessa daga. Svo er annað mál hvernig þessu er skipað og í 2. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands skulu á hverjum tíma ekki vera fleiri en tíu.“

Það er hins vegar ekkert um það að finna í greinargerð við þessa breytingu hvers vegna talan tíu er valin. Er þetta einhver heilög tala, nákvæmlega útreiknuð eða fundin út? Svo er ekki að sjá. Ég spyr og hef spurt hvers vegna þetta geti ekki verið átta, sex eða tólf? Það er enginn rökstuðningur fyrir því hvers vegna þetta er dregið við þessa þó annars fallegu tölu. Mér finnst með ólíkindum að ekki liggi fyrir betri og fyllri rökstuðningur fyrir þessu máli.

Þegar hæstv. ráðherra talar um að hann vilji ekki leggja upp með umræðuna með þeim hætti að hér sé verið að gera breytingar á þeirri ráðuneytaskipan sem fyrir liggur í dag, það sé ekki tilgangurinn með frumvarpinu, trúir enginn þeim orðum. Það er eðlilegt að álykta sem svo í ljósi þess sem áður hefur gengið á í samstarfi þessara tveggja stjórnarflokka að það sé rík ástæða til að leggja við hlustir þegar stjórnarliðar gagnrýna þá fyrirætlan sem kemur fram í þessu. Það liggur fyrir að það er ekkert samkomulag á milli stjórnarflokkanna tveggja í þessu máli þegar annar stjórnarflokkurinn leggur það fram og heitir stuðningi við það inn í umræðuna með fyrirvara um afgreiðslu þess.