139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:54]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég skal leggja mig fram um að gæta virðingar sjálfs mín og þingsins eins og frekast ég má þó að ég telji að ég hafi aldrei ástundað annað. Ég held þvert á móti að ég hafi lagt mig fram um að sýna kurteisi.

Varðandi spurningar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, sem ég þakka fyrir, vil ég segja að hæstv. utanríkisráðherra hefur iðulega upplýst þingheim og raunar alþjóð um að hann beiti svokallaðri skapandi hugsun í ýmsu því sem hann vill takast á við. Greinilega er hæstv. ráðherra að reyna að færa það háttalag sitt yfir á samstarfið við Vinstri græna í þessari ríkisstjórn. Og ekki veitir af. Í ljósi þess hvernig samband þessara tveggja stjórnarflokka er er það fremur orðin regla í stórum málum að þau séu afgreidd út úr ríkisstjórn í ágreiningi og meðferð þeirra mála ber þess vitni í þinginu að þetta endar allt í upphlaupum og vitleysu. Ég gerði þetta að umtalsefni í ræðu minni í gær þar sem orðfæri stjórnarliða úr báðum stjórnarflokkum um þingmannahópa innan beggja raða er af ýmsum toga. Mér kæmi ekkert á óvart þó að einhvers staðar væri hvíslað núna í öðru hvoru stjórnarþingflokksherberginu að þetta frumvarp gæti verið skrifað af ísbjörnum. [Hlátur í þingsal.]