139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:58]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég svara spurningu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um það hvort þetta sé gert til að geta lamað einstök ráðuneyti og annað því um líkt með því að ég ætla mér ekki að leggja þann dóm á það að það sé tilgangurinn í þessum efnum. Ég bendi á að í frumvarpinu eru ýmis ákvæði sem ég nefndi í ræðu minni í gær sem eru til bóta í starfsemi Stjórnarráðsins. Ég nefndi hins vegar líka að ef smíði frumvarpa og verklagi væri fylgt samkvæmt reglum sem fyrir væru í stjórnsýslunni væri þingið ekki sett í þetta karp gagnvart framkvæmdarvaldinu um þessi stóru, miklu mál. Sú handbók sem hér hefur iðulega verið nefnd um undirbúning lagafrumvarpa og reglna sem smíðuð var af Alþingi, forsætisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu er góð og gegn. Ef henni hefði verið fylgt hefðu menn ekki lent í svona klessuverkum.