139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður minntist á það í ræðu sinni áðan og velti upp þeirri spurningu hvaða rök væru fyrir því að talað sé um tíu ráðuneyti í frumvarpinu en ekki átta eða eitthvað annað. Það er satt og rétt sem kom fram í ræðu þingmannsins að ekki er að finna nein rök fyrir þessari tölu í skýringum með frumvarpinu. Hins vegar er vitnað til þess að þetta sé til að spara og eitthvað slíkt en rökstuðningurinn er enginn að öðru leyti. Því er í raun útilokað að spyrja hv. þingmann þeirrar spurningar sem freistandi er að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum er þessi tala þarna? Hvaðan kemur hún og hvað liggur að baki henni? þegar ég veit að þingmaðurinn getur ekki frekar en ég fundið rökin fyrir því.

Annað sem hefur komið fram í andsvörum og ræðum hérna er formfesta. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur meðal annars bent á það varðandi fjárlaganefnd þar sem hann sat — ég man ekki hvort hann situr þar enn, jú hann situr þar — að þar hafi vantað í gegnum tíðina ákveðna festu í því hvernig fjárlög eru unnin og slíkt. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að frumvarp sem þetta, þar sem að mínu viti er verið að taka út þá litlu formfestu sem nú þegar er í lögum um Stjórnarráðið, þ.e. að tilgreina ákveðin ráðuneyti með nafni og slíkt, sé í anda þeirrar umræðu sem hv. þingmaður og aðrir þingmenn hafa haft hér uppi varðandi t.d. fjárlögin og hvernig þau eru unnin. Við vorum nú að samþykkja lokafjárlög fyrir 2009 fyrir nokkrum dögum. Í rauninni er grunnspurningin sú: Erum við eitthvað að sinna þeim ábendingum sem komu fram í þingmannaskýrslunni af því að hann nefndi hana áðan?