139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skelegga og kraftmikla ræðu. Það sem mig langar að koma að og fara aðeins yfir er það sem kom fram í máli hennar og sneri að bls. 6 í frumvarpinu þar sem talað er um að þetta gríðarlega samráð hafi átt sér stað. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns, þetta samráð virðist hafa verið í mjög þröngum afmörkuðum hópi og lítið hafi verið farið út fyrir stjórnsýsluna eða ekki mikið út fyrir forsætisráðuneytið yfir höfuð. Það er mjög auðvelt að hafa samráð ef menn tala ekki við nokkurn mann til þess að hafa samráð við. Þetta er svona eins og að hafa samráð við sjálfan sig.

Eitt af því sem talað er um í þeim skýrslum sem komu fram í þessum samráðshópum eða hvað það nú er — nú hef ég svo stuttan tíma að ég næ ekki að fara yfir það — er einmitt það að efla og auka þurfi foringjaræði eða pólitíska stöðu forsætisráðherra og annað því um líkt. Nú er hv. þingmaður (Forseti hringir.) nýr á þingi, hvað finnst henni um þetta frumvarp? Er þetta (Forseti hringir.) að hennar mati skref í þá átt að minnka (Forseti hringir.) foringjaræðið eða hið gagnstæða?