139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:41]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, auðvitað er alltaf hætta þegar verið er að breyta einhverju. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom inn á það í ræðu sinni rétt undir miðnætti í gær að þegar hann fór í opinbera heimsókn til Danmerkur og vildi ræða við þann ráðherra sem hefði með landbúnaðarmál að gera, þá vissi enginn hver var með landbúnaðarmálin.

Ég trúi því samt ekki að við séum ekki komin lengra en það að það sé ætlunin með þessu frumvarpi, ég neita bara að trúa því, að gera þetta þannig úr garði að enginn viti hvaða málaflokk hann er með, að það verði einn ráðherra sem öllu ræður. Ég vil ekki trúa því. En eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan er það forsagan sem gerir mann hræddan, það er það sem á undan hefur gengið.

Ég ætla ekki hæstv. forsætisráðherra að fara að ráða öllu, ég geri það ekki.