139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ljómandi góða ræðu. Ég vil fyrst segja örstutt varðandi samráð að við þekkjum ýmsar myndir af því í þinginu. Hér var stofnað til mikils samráðs um sjávarútvegsmál, stórt mál að sjálfsögðu, en hvað var svo gert við þá niðurstöðu? Ekki neitt. Ríkisstjórnin ákvað að gera ekkert við þá niðurstöðu.

Vera kann að það sé minna mál að breyta Stjórnarráðinu en að setja á fót eitthvert aprílgabb um samráð í sjávarútvegi. Hins vegar er svolítið sérstakt að sjá það í dag að ákveðnir stjórnarliðar sem töluðu 2007 fyrir því að um svona mál ætti að ríkja samráð skuli ekki koma hér og tala um það með sama hætti og vitna ég þar m.a. í orð hæstv. fjármálaráðherra sem talaði þá.

Hv. þingmaður kemur úr skólakerfinu og er grunnskólakennari, ef ég veit rétt. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þetta vinnulagi og það sem hér er á ferðinni samræmist því sem hún hefur kynnst sem grunnskólakennari.