139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

kauphækkanir og hagvöxtur.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því ef svo fer sem horfir að samningar takist milli aðila vinnumarkaðarins í dag. Að því er varðar áhrifin af þessum kjarasamningum höfum við látið skoða hvers megi vænta að því er varðar verðbólguáhrif af þessum kjarasamningum.

Hagstofan hafði gert ráð fyrir að laun hækkuðu í ákveðnum takti og það hefur verið metið. Auðvitað er þetta lausleg spá en eftir því sem Hagstofan kemst næst mun þetta hafa áhrif á verðlagið sem nemur á samningstímanum um 0,5% sem verðbólgan verður meiri en gert var ráð fyrir áður í spá Hagstofunnar.

Það er alveg ljóst að hér er um verulegar kauphækkanir að ræða sem koma auðvitað misjafnlega niður á atvinnugreinunum. Menn hafa áhyggjur af því hvaða áhrif þessar launahækkanir muni hafa á einstakar greinar, ekki síst verslunina sem stendur nokkuð höllum fæti. En það er gert ráð fyrir því í þeim áhrifum sem menn hafa metið af þessu að kaupmáttaraukning launa gæti á samningstímanum orðið um 6–8% að meðaltali og enn meiri á lægstu laun. En allt fer þetta eftir því, eins og hv. þingmaður nefndi, hvernig gengur að framfylgja þeim fjárfestingaráætlunum sem fylgja þessum kjarasamningum sem eru um að fjárfestingaráform eigi að aukast á tímabilinu um 13% á landsframleiðslu, í 20%. Gangi það eftir getum við búist við þessari kaupmáttaraukningu, þessum verðbólguáhrifum sem ég nefndi og að hagvöxtur á þessu ári (Forseti hringir.) verði 2–3%, og 4–5% á árunum 2012 og 2013.