139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

endurútreikningur lána.

[10:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er sérkapítuli út af fyrir sig að við skulum hafa falið þeim sem brutu á neytendum að endurreikna lánin. Þau svör sem hafa borist frá fjármálafyrirtækjunum gefa til kynna að við höfum ekki bara gert það, heldur líka gefið fjármálafyrirtækjunum nánast heimild til að útfæra sjálf aðferðafræðina við útreikningana. Þetta staðfestir það sem dómurinn í gengistryggingamálinu benti okkur á, að eftirlit með fjármálaafurðum á Íslandi er til háborinnar skammar.

Þetta varðar ekki bara gengistryggð lán. Við höfum fengið mjög alvarlegar ábendingar til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins frá Neytendastofu um að þetta gildi líka um aðra lánasamninga. Við erum ekki með lög í landinu um það hvernig skuldabréf eiga að vera sett upp. (Forseti hringir.) Neytendastofa hefur lagt mikla áherslu á að tekið verði á þessu og hér kemur enn á ný í ljós að staðan er óásættanleg.