139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

afturvirkni laga.

[11:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að þetta er íþyngjandi, sú breyting sem þarna er talað um, og þar af leiðandi held ég að ekki þurfi að hugsa meira um það. Það er að sjálfsögðu ekki heimilt að láta íþyngjandi lög gilda afturvirkt.

En þá komum við að öðru máli sem þessu tengist, þeirri aðferðafræði sem höfð er við endurútreikning á lánum. Ég velti því fyrir mér og vænti þess að hæstv. forsætisráðherra svari því: Getur talist eðlilegt, og er það þá jafnframt afturvirkni, að senda fólki sem hefur greitt upp lánin sín, jafnvel fyrir nokkrum árum, bakreikninga núna út frá lögum sem Alþingi hefur samþykkt eða að skýla sér á bak við þau? Er það ekki einnig afturvirkni þegar einstaklingur sem greitt hefur lán sín upp fyrir tveim árum fær núna feitan og pattaralegan reikning frá lánafyrirtæki sínu? Við hljótum (Forseti hringir.) að spyrja um þetta, hæstv. ráðherra.