139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:03]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Í samgöngumálum skiptir stöðugleiki öllu máli, stöðugleiki í tíðni ferða og þjónustu. Það er lykilatriði. Hitt er ekki samgöngur, hitt er áhugamannaaðferðir.

Landeyjahöfn sem menn höfðu miklar væntingar til lofar góðu en hefur verið erfið í fæðingu. Það er að mörgu leyti skiljanlegt en það er ekki að öllu leyti ásættanlegt að ekki hafi verið brugðist betur við ýmsum þáttum er lúta að þessu mannvirki. Við skulum muna að samgöngum við Vestmannaeyjar, einn fjölsóttasta ferðamannastað landsins um áratugaskeið, hefur farið aftur svo nemur líklega 50–60 árum. Það þætti ekki boðlegt á höfuðborgarsvæðinu, hæstv. innanríkisráðherra. Þess vegna þarf að kljást við þennan vanda eins og annars staðar af fullri ábyrgð. Til að mynda var flugþjónusta við Vestmannaeyjar skorin niður af fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra, Kristjáni Möller, á einni nóttu þótt tugþúsundir ferðamanna færu flugleiðis til Vestmannaeyja. Þetta er flókið mál en ekki það flókið að menn geti ekki ráðið við það ef þeir ganga til verka eins og vanir menn.

Það er engin spurning, virðulegi forseti, að þau dæluskip sem hafa verið í Landeyjahöfn ráða ekki við aðstæðurnar þar vegna sjólags. Það hefur vissulega verið erfitt sjólag í vetur en engu að síður eru þarna þröskuldar sem verður að taka á, annaðhvort að leggja drög að nýju dæluskipi sem kostar ekkert stórkostlega mikið, sem gæti þá sinnt fleiri þáttum í höfnum landsins, eða bregðast við á annan hátt. Það er þó jákvætt að sandburður að Landeyjahöfn hefur minnkað um nær 95%, þ.e. gosefnin sem fylgdu Eyjafjallagosinu eru að sigla út úr hafnarmynninu, út úr fjörunum sem þau runnu fram í. Nú er farið að renna í ákveðna átt eins og er hefðbundin aðstaða við Landeyjahöfn og hegðun sjávar og sands. Engu að síður er vandinn á borðinu.

Það þarf að taka miklu fastar á í þessum efnum. Það þarf að hefja nú þegar undirbúning að smíði nýrrar ferju. Það er ekki tímabært að taka ákvörðun um það en það er hægt að hefja undirbúning nú þegar og kanna og fylgjast með öllum möguleikum þannig að það tefji ekki þegar þar að kemur, hugsanlega í árslok eða þar um bil. Það verður hægt að taka ákvörðun um það þegar reynslan hefur talað. En þetta má ekki bíða, það verður að skoða möguleika á heflun á hafsbotni sem er aðferð sem þekkist víða erlendis. Það mál er í biðstöðu en frekar ættu menn að skoða núna fastan dælubúnað í hafnarmynninu sem væri hægt að byggja á sumri komanda. Hvort hann kostar plús eða mínus 300 milljónir skal ég ekki segja fullkomlega, en þetta er dæmið sem gæti leyst af dæluskip í Landeyjahöfn. Vandinn við dælingar þar er meðal annars sá að höfnin er svo lítil og erfitt að fá skip til að athafna sig þar við erfiðar aðstæður. Það verður að taka af skarið með þetta, það verður að tryggja smábátaaðstöðuna sem vantar, það kemur um leið og menn fara að ráða við þetta vandamál við höfnina. Það þarf að gera aðstöðu um leið fyrir björgunarsveitir og tryggja þannig að þetta verði höfn í notkun árið um kring. Annað er ekki boðlegt. Það kynni að mega takmarka smábátaferðir yfir háveturinn en ekki að öðru leyti.

Um þetta vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Hver verða næstu skref hans í þessu máli til að leysa þarna vanda (Forseti hringir.) sem má ekki bíða?