139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Margt hefur tekist vel varðandi Landeyjahöfn og allir viðurkenna að hún er gríðarleg samgöngubót og hefur orðið lífinu í Vestmannaeyjum mikil lyftistöng (Gripið fram í.) þegar vel hefur tekist til. Sumt hefur farið úrskeiðis og nú beinum við sjónum okkar að því sem úrskeiðis hefur farið, og þá segi ég: Við þurfum að greina vel á milli þess sem hefur verið í okkar valdi að laga og hins sem við höfum ekki ráðið við. Hér þurfum við að vera sanngjörn vegna þess að við komumst ekkert áleiðis með því að kveða upp þunga dóma yfir mönnum þegar um er að ræða mál sem þeir hafa ekki ráðið við.

Það er staðreynd að með gosi í Eyjafjallajökli og tilheyrandi sandburði niður Markarfljót til sjávar skapaðist ójafnvægi á ströndinni við Landeyjahöfn. Um 2 milljónir rúmmetra af gosefnum hafa komið niður fljótið frá gosi og fram á haustið 2010 og þetta efni myndaði sandöldur sem hamlað hafa siglingu Herjólfs um Landeyjahöfn. Þetta er staðreynd sem við ráðum ekkert við.

Siglingastofnun Íslands bauð í fyrrahaust út viðhaldsdýpkun á ströndinni við Landeyjahöfn og samdi við Íslenska gámafélagið þann 11. febrúar um að taka verkið að sér. Þetta var samningur til þriggja ára og nam heildarupphæð hans 294,9 millj. kr. Gámafélagið hefur notað sanddæluskipið Skandia til þessa verks.

Meginerfiðleikarnir sem við hefur verið að stríða hafa orðið til af mjög rysjóttu veðurfari. Erfiðleikarnir tengjast því hversu fáir dagar hafa gefist til dýpkunar en til að unnt sé að dýpka í höfninni þarf ölduhæð að vera undir tiltekinni hæð sem nemur 2 metrum. Í meðalárferði í febrúar gefast 14 dagar fyrir Skandia að dýpka. Í febrúar í ár reyndust þeir vera fjórir, þetta er bara veðurfarið. Í meðalárferði gefast 17 dagar í mars fyrir Skandia að dýpka, í mars í ár reyndust þeir vera 13. Í meðalárferði gefst 21 dagur í apríl fyrir Skandia að dýpka, í apríl í ár reyndust þeir vera fimm. Þetta eru bara staðreyndir og við semjum ekki við náttúruöflin um þetta. Við vildum að þetta hefði verið á annan veg, en þetta er veruleikinn sem við blasir.

Þá er spurningin hvernig við glímum við hann. Eitt af því sem gert hefur verið er að reisa varnargarð við Markarfljót sem mun hafa þau áhrif til framtíðar að framburður úr fljótinu leitar frekar austur frá höfninni og lokar höfninni síður.

Það eru ýmsir aðrir þættir sem hér koma til og hv. þingmaður hefur vakið máls á. Hann teflir fram hugmynd um að komið verði upp föstum dælubúnaði svo dæmi sé tekið. Þetta er hugmynd sem fulltrúar Siglingastofnunar hafa einnig sett fram. Þetta mundi að öllum líkindum kosta á bilinu 400–1.000 millj. kr. eftir því hvaða búnaður yrði notaður og athygli okkar í ráðuneytinu hefur verið vakin á því að þetta er að vissu leyti líka tilraunaverkefni. Við getum ekki sagt fyrir um það á afdráttarlausan hátt hverjar niðurstöðurnar yrðu. Þar erum við kannski komin að þungamiðjunni í þessu máli. Við ætlum að leysa þetta mál eftir því sem frekast er kostur en við verðum og erum nauðbeygð til að gefa málinu tíma. Við verðum að sjá hver framvindan verður í náttúrunni og taka síðan mið af því. Ég vísaði í staðreyndir um frávik frá hinu hefðbundna í náttúrunni hvað varðar vindáttir og rysjótt veðurfar að ógleymdu að sjálfsögðu gosinu (Forseti hringir.) sem var þarna afgerandi. Ég mun svara spurningum hv. þingmanns nánar þegar ég kem í síðari ræðu.