139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:16]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur flýgur oft á milli Norðausturlands og Reykjavíkur og eitt sinn var við hliðina á mér kona, búsett á Akureyri, sem var á leið til sinna heimaslóða, Vestmannaeyja, á flugleiðinni Akureyri–Reykjavík. Hún sagði við mig: Hvað bíður mín í Reykjavík? Ég þarf að taka leigubíl frá flugstöðinni og aka með þeim leigubíl yfir á Hótel Loftleiðir og taka þar flugvél með Flugfélaginu Örnum til Vestmannaeyja. Með öðrum orðum þessi kona þurfti að taka leigubíl á flugleiðinni Akureyri–Reykjavík–Eyjar.

Þetta er dæmi um samgöngumáta sem margir úti á landi þurfa að búa við. Þegar kemur að samgöngumálum skiptast landsmenn að mörgu leyti í tvö horn um það sem þeir fá fyrir skattpeningana sína. Sumir njóta ríkulegrar þjónustu í samgöngumálum, aðrir mun lakari. Svo hefur verið um Vestmannaeyinga um langt árabil.

Það mundi sennilega aldrei líðast að Norðlendingar væru lokaðir inni vegna þess að Holtavörðuheiðin væri ekki rudd reglulega og væri jafnvel ekki rudd og það kæmi jafnvel til greina að hætta vetrarþjónustu á heiðum sem Holtavörðuheiði. Það kæmi einfaldlega ekki til greina. En það virðist sem það komi að einhverju leyti til greina að Vestmannaeyingar búi við minni þjónustu hvað samgöngur varðar og það ber að leiðrétta.

Auðvitað er það svo og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan að landsmenn hafa verið óheppnir með veðurlag í vetur og til þess ber að horfa þegar að endurbótum á Landeyjahöfn kemur. Við skulum vona að með öllum ráðum verði reynt að kippa þessu í liðinn á komandi vikum og mánuðum og að Vestmannaeyingar geti notið þessara (Forseti hringir.) mestu samgöngubóta í sögu Eyjanna frá upphafi.