139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:23]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Á vef Siglingastofnunar er eftirfarandi um mögulegar lausnir vegna Landeyjahafnar, með leyfi forseta:

„Efnahagsástandið á Íslandi hefur nú sett smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju í uppnám og hefur ráðuneyti samgöngumála fallið frá því að ferja verði keypt á meðan gjaldeyriskreppa ríkir hér á landi. Málið verður tekið upp að nýju þegar betur árar í fjármálum þjóðarinnar “

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Vegna djúpristu Herjólfs eru frátafir áætlaðar 5–10% af tímanum“ — þ.e. siglingar til Landeyjahafnar — „og yfir vetrarmánuðina jafnvel upp í 20%. Svo miklar frátafir eru ekki ásættanlegur kostur. Því er ætlunin að hefja leit að leiguferju þar sem frátafir væru svipaðar eins og upphaflega var lagt af stað með, 3%. Ef sú leit skilar ekki viðunandi árangri verður reynt að nota gamla Herjólf. Til að lágmarka óhjákvæmilegar frátafir mundi hann sigla til Landeyjahafnar frá apríl fram í nóvember en yfir vetrarmánuðina til Þorlákshafnar þegar tíðarfar er rysjóttara.“

Þetta rifja ég hér upp, virðulegi forseti, vegna þess að að stórum hluta var þetta fyrirséð vandamál. Það lá fyrir á þessum tíma. Þetta er frétt frá 19. nóvember árið 2008, þetta er ekki ný frétt. Þetta var birt á vef Siglingastofnunar þegar sú ákvörðun var tekin að fresta byggingu nýrrar Vestmannaeyjaferju. Þetta var fyrirsjáanlegt vandamál að talsverðum hluta til þó að erfiðleikarnir hafi vissulega orðið meiri en gert var ráð fyrir á þessum tíma, m.a. vegna ýmissa aðstæðna sem hér hafa verið nefndar, eldgos og fleira í þeim dúr. Það voru efasemdir líka á þinginu um þessar framkvæmdir og margar í þessa veru, að það yrði illsiglanlegt í þessa höfn yfir vetrarmánuðina samkvæmt þeim sem til þekktu.

Ég held að við ættum samt sem áður ekki að afskrifa Landeyjahöfn hér og nú þegar ekki er einu sinni ár liðið frá því að höfnin var opnuð. Það er langur vegur frá því að við eigum að afskrifa þessa góðu samgöngubót, sem hún er. Þetta er og verður góð og (Forseti hringir.) mikilvæg samgöngubót, ekki bara fyrir Vestmannaeyjar heldur fyrir landið allt. Við eigum ekki að hrökkva af hjörunum þó að byrjunarerfiðleikarnir séu meiri en við gerðum ráð fyrir.