139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af fyrri ræðu mundi ég vilja beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra og ég vonast til að hann geti svarað henni í lokaorðum sínum: Er ætlunin að framlengja samninginn við Íslenska gámafélagið um dýpkun Landeyjahafnar eða ekki?

Það kemur fram í frétt á RÚV að hæstv. ráðherra hafi bent á að það hafi verið ákveðið skipulags- og reynsluleysi hjá verktakanum og að skipið hafi ekki haft afkastamikinn dælubúnað. Það er náttúrlega mjög alvarlegt ef það hefur legið fyrir nánast þegar samningurinn var gerður að það væri ekki mikil reynsla af því að standa í svona sandmokstri eins og skipinu var ætlað að gera með samningnum, og líka að skipið væri svona gamalt og hefði svona litla vél eða litla afkastagetu þegar skrifað var undir samninginn. Ég held að það sé mikilvægt að fá svör við þessu.

Síðan vildi ég ítreka að mér finnst það aðalatriði að við leggjum áherslu á að tryggja að Landeyjahöfnin sé opin allt árið. Það er hins vegar líka nauðsynlegt að vera með viðbragðsáætlun þegar aðstæður eru þannig að það er ekki hægt. Þá er algjörlega óásættanlegt að við Eyjamenn þurfum að búa við það að þjónustan sé lakari, við erum að borga meira fyrir lakari þjónustu um borð. Starfsfólki hefur verið fækkað, öll þjónustan hefur dregist saman. Það skiptir mjög miklu máli að ekki sé verið að bjóða upp á lakari aðstæður þegar okkur hefur verið lofað betri samgöngum.

Ég vil líka benda á, og það kom fram hér í ræðu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, að talað var um að leigja nýja ferju. Ég veit ekki til þess að neitt sé byrjað að skoða það (Forseti hringir.) þó að við höfum lagt það til hliðar að smíða nýja ferju.

Að lokum vil ég hins vegar taka fram að Flugfélagið Ernir hafa staðið sig (Forseti hringir.) mjög vel í flugi og það ber að þakka.