139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu, sem að mörgu leyti hefur verið góð, hafa talað margir þingmenn sem sjálfir búa á landsbyggðinni og sem búa í Vestmannaeyjum og málið brennur á. Ég skil mjög vel að þeim sé mikið niðri fyrir, skil það mjög vel og virði það.

En ég spyr á móti hvort ekki sé eðlilegt að menn kappkosti hér í þessum sal, þar sem við förum með löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið, að vera pínulítið sanngjarnir og raunsæir í málflutningi sínum. Spurt er hvort einhver uppgjöf sé uppi. Nei, það er engin uppgjöf. Við ætlum hins vegar að fara fram af fullu raunsæi í málinu og ég er að benda á þætti sem við höfum ekki ráðið við og á hvern hátt við erum að bregðast við þannig að úrbætur náist.

Einn hv. þingmaður talar um að við hefðum átt að gera ráð fyrir gosi í útreikningum vegna þess að Ísland sé eldgosaland, eldfjallaland. Hvernig gátum við vitað þetta? Hvernig gátum við vitað að veðurfar yrði nú rysjóttara en verið hefur um langt skeið, að sandburður yrði með öðrum hætti en verið hefur?

Ég segi því: Við eigum að fara að öllu með gát og af fullri yfirvegun en ekki ráðast í einhverjar miklar handahófskenndar fjárfestingar nánast byggðar á duttlungum og með því að reka puttann upp í loftið.

Við eigum von á því að fá yfirgripsmikla skýrslu frá Siglingamálastofnun um miðjan maímánuð. (Forseti hringir.) Þegar hún liggur fyrir hef ég ákveðið að boða til fundar í Vestmannaeyjum með öllum hlutaðeigandi aðilum og öllum sem að málum koma, (Forseti hringir.) einnig Vegagerðinni, Eimskipafélaginu og öðrum þeim sem sjá Vestmannaeyingum fyrir þjónustu. Ég vænti þess að þá muni þingmenn af svæðinu einnig mæta og við getum átt gagnlega og góða umræðu. Ég er sannfærður (Forseti hringir.) um að það sama vakir fyrir okkur öllum, að tryggja traustar og góðar samgöngur við Vestmannaeyjar.