139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[11:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur áðan er rétt að ég haldi til haga því sjónarmiði sem ég hef svo sem látið koma fram, bæði við 1. umr. um þetta mál og ekki síst í september þegar ákærutillagan vegna þess eina tiltekna máls sem er til meðferðar hjá landsdómi var rædd, að margt í þessu máli stenst að mínu mati ekki kröfur um réttláta málsmeðferð. Það eru þættir sem við ræddum hér í september en ég er reyndar þeirrar skoðunar að atburðarásin frá því að ákærutillagan var samþykkt í september sé líka mjög gölluð að mörgu leyti. Ég nefndi nokkur atriði um það í ræðu minni við 1. umr. Þar má tiltaka marga þætti sem varða bæði það sem gerst hefur í þinginu en líka það sem gerst hefur hjá öðrum aðilum. Það er svo sem utan við efni þessarar umræðu í dag en ég held hins vegar að þegar mál þetta verður allt skoðað að því loknu muni menn sjá að margt hefur verið gallað frá upphafi. Til þess var stofnað á röngum forsendum að mínu mati, en um það deildum við hart á haustþingi eins og menn muna. Ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að til þessa máls hafi verið stofnað á pólitískum forsendum og ekki neinu öðru og að þarna hafi verið tekið afdrifaríkt skref í því að færa pólitískan ágreining inn í réttarsali. Ég held að hvað sem menn gera í sambandi við löggjöf á sviði ráðherraábyrgðar og landsdóms muni menn sjá í þessu máli mörg víti til að varast.

Ég minni á að samþykkt hefur verið á þessu þingi og margyfirlýst að rétt sé að fara í heildarendurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm. Ég held að í þessu máli muni finnast afar mörg víti til að varast, allt frá því að til þess var stofnað í upphafi og fram til dagsins í dag, þó að maður voni auðvitað og verði að treysta því að landsdómur muni standa undir þeim miklu kröfum sem til hans eru gerðar þegar málið kemur til dóms. Fyrir fram vil ég ekki varpa neinni rýrð á landsdóm eða þá dómara sem þar sitja, hef enga ástæðu til þess. Margt í aðdragandanum er þó gagnrýnisvert og verður það rætt við síðara tækifæri.

Við 1. umr. um þetta mál nefndi ég að sú tillaga sem hér er verið að fjalla um og frumvarpið gengur út á væri hugsanlega skásta lausnin í afleitri stöðu. Ég er ekki sannfærður um það en ég held að svo kunni að vera. Að minnsta kosti voru ýmsar aðrar leiðir ræddar í sambandi við breytingar á landsdómslögunum til að bregðast við þeim vanda sem að sönnu er uppi í þessum efnum og þær leiðir sem nefndar voru eru að mínu mati verri en sú sem hér liggur fyrir. Ég held að til dæmis sé betra að fjalla um þetta mál sem við erum með á borðinu í dag en það frumvarp sem hæstv. innanríkisráðherra flutti í nóvember og reyndar var aldrei klárað við 1. umr. Þar var gert ráð fyrir mun víðtækari breytingum á lögum um landsdóm og ég held að hefðu menn ætlað sér að klára það mál hefði verið farið út á talsvert mikla háskabraut varðandi einmitt réttaröryggi í málinu.

Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna að sú leið sem hér er lögð til er auðvitað afskaplega viðkvæm, ég held að við hljótum öll að átta okkur á því. Hún er viðkvæm vegna þess að fyrsta og eina málið sem hefur komið til kasta landsdóms er í meðferð núna. Þó að reglan sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu hafi það yfirbragð að um almenna lagabreytingu sé að ræða er þetta hugsað vegna eins tiltekins máls sem er í gangi, það er augljóst. Það er bara eitt mál í gangi og menn hafa áhyggjur af því hvaða áhrif það kunni að hafa þegar kjörtímabil núverandi dómara í landsdómi rennur út í næstu viku. Þess vegna er brugðist við með því að flytja þetta frumvarp og það gerir þetta auðvitað viðkvæmt af því að það er eitt tiltekið mál í gangi, fyrsta og eina landsdómsmálið er í gangi. Það má segja að það sé í miðju kafi og þegar af þeirri ástæðu er auðvitað viðkvæmt að breyta lögunum um landsdóm.

Það er að sönnu minni aðgerð af hálfu Alþingis að framlengja umboð þeirra sem nú sitja í dómnum en að kjósa nýja til að fjalla um sama mál. Það er minni aðgerð en það er engu að síður aðgerð, það er pósitíf ákvörðun af hálfu Alþingis um að þeir skuli ljúka málsmeðferðinni sem hafa hafist handa við það. Það er ákvörðun af hálfu Alþingis. Við skulum átta okkur á því. Þetta er auðvitað sérstakt, sérstaklega í ljósi þess að í landsdómsmálum er sú sérstaka staða uppi að Alþingi ákveður málshöfðunina. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr og hvort sem aðrir möguleikar eru fyrir hendi eða ekki er staðan einfaldlega sú að það Alþingi sem ákvað að höfða mál á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sömu þingmenn, tekur núna ákvörðun um það hvaða einstaklingar eiga að dæma í máli hans. Þannig er það bara. Staðan er vandmeðfarin og vandasöm en þannig bara er þetta.

Vegna þess að þetta er svona viðkvæmt lögðum við hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson áherslu á það á vettvangi allsherjarnefndar að af hálfu nefndarinnar yrði rætt við einhverja sérfræðinga á sviði réttarfars um það hvaða áhrif þessi aðgerð gæti haft eða hvaða réttarlegu áhrif gætu stafað af þessu. Allsherjarnefnd fundaði einu sinni um þetta mál milli 1. og 2. umr., í hádeginu í gær, og það lá ljóst fyrir frá upphafi að af hálfu formanns nefndarinnar og meiri hluta hennar væri ekki vilji til að taka málið til frekari skoðunar. Það var talinn óþarfi. Því sjónarmiði andmæltum við hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og ég held að það hafi ekki verið óhjákvæmilegt að afgreiða málið út úr nefndinni með þessum hætti án þess svo mikið sem að ræða við einn sérfræðing á sviði réttarfars. Mat meiri hluta nefndarinnar var að þetta væri rétt niðurstaða og um það ætla ég svo sem ekki að deila við þá hv. þingmenn sem að því stóðu. En ég vakti athygli á því, og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, að það væri auðvitað eðlilegt í ljósi þessa máls að fá á fund nefndarinnar einhverja sérfræðinga sem gætu tjáð sig um þetta mál, hvaða áhrif það kynni að hafa. Ég held að það hefði verið hægt að koma því við með tiltölulega lítilli fyrirhöfn, menn hefðu ekki þurft að tefja málsmeðferð í allsherjarnefnd neitt úr hófi. Ég stakk upp á því á fundi nefndarinnar í hádeginu í gær að nefndin gæti haldið fund, t.d. að loknum þingfundi í gærkvöldi eða í hádeginu í dag, þannig að það vakti alls ekki fyrir mér að tefja málsmeðferðina neitt. Hins vegar hefði ég talið eðlilegt að nefndin gæfi sér að minnsta kosti smátíma til að meta hvort það væri rétt að verki staðið með því að afgreiða þetta mál. Þetta er viðkvæmt, þetta er óumdeilanlega erfitt og mjög viðkvæmt. Það er eitt tiltekið mál í gangi núna og það er auðvitað sérstaklega viðkvæmt vegna þess að það var þetta þing sem tók ákvörðun um að höfða þetta mál. Það gerir það að verkum að þetta er ekki alveg sambærilegt við það þegar almennar réttarfarsbreytingar hafa verið gerðar og dómarar eru látnir ljúka meðferð þeirra mála sem þeim hafa verið falin. Hér er sá aðili sem tekur pósitífa ákvörðun um að framlengja kjörtímabil tiltekinna einstaklinga í landsdómi sama þingið og tók ákvörðun um að höfða málið á sínum tíma. Það gerir þetta svolítið sérstakt og gerir það auðvitað að verkum að það er ólíkt að því leyti breytingum sem vísað hefur verið til, t.d. varðandi félagsdóm og ýmsar réttarfarsbreytingar sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Það er sami aðili, sama þing, sömu þingmenn sem ætla að taka ákvörðun af þessu tagi núna og tóku þá ákvörðun að höfða það mál sem er til meðferðar.

Ég hefði talið gagnlegt fyrir allsherjarnefnd að heyra sjónarmið réttarfarssérfræðinga hvað það varðar. Það var mat meiri hluta nefndarinnar að gera það ekki. Ég gagnrýni þá niðurstöðu. Nefndinni er að sjálfsögðu ekki skylt að kalla til sérfræðinga á sviði réttarfars eða öðrum sviðum þegar eftir því er leitað en það er óvenjulegt að ekki sé orðið við lágmarksbeiðnum um slíkt. Sem betur fer er það undantekning að ekki sé staðið þannig að verki. Mér finnst það gagnrýnisvert og ég held að slík yfirferð á einum eða kannski tveimur fundum í gærkvöldi og í dag hefði ekki orðið til þess að tefja framgang málsins. En það er ágætt að meiri hluti nefndarinnar er viss í sinni sök og treystir sér til að gera þetta án frekari skoðunar og án þess að leita ráðgjafar hjá sérfræðingum. Ég er hins vegar ekki tilbúinn til þess. Ég hefði talið réttara að leita álits. Ég veit ekki hvernig það álit hefði orðið, fyrir fram er ég ekki viss um hver niðurstaða sérfræðinga á sviði réttarfars hefði orðið. Það má vel vera að þeir hefðu sagt að þetta væri skásta leiðin í stöðunni, en mér finnast það ekki vönduð vinnubrögð af hálfu allsherjarnefndar og þingsins að afgreiða málið án þess að eiga svo mikið sem eitt samtal við sérfræðinga á sviði réttarfars í þessum efnum.

Ég nefni sérfræðinga á sviði réttarfars. Það var reyndar rætt í nefndinni líka hvort ræða ætti við sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar sem hefði líka verið álitamál út frá kröfum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um réttláta málsmeðferð og þess háttar. Það er líka gilt sjónarmið en réttarfarsráðgjöf hefði verið mikilvæg í þessu sambandi.

Ég nefndi það á fundi allsherjarnefndar að þrátt fyrir að 1. flutningsmaður málsins sé ágætur lögmaður og reyndur í störfum sínum á þeim vettvangi, hv. þm. Atli Gíslason, er það svo með öll okkar verk að stundum er ágætt að fá það sem við getum kallað utanaðkomandi sýn á það sem við erum að gera. Án þess að, eins og ég segi, ég vilji varpa neinni rýrð á hv. 1. flutningsmann málsins hefði ég talið gagn að því fyrir þá þingnefnd sem hefur þetta mál til meðferðar að ræða við sérfræðinga á viðkomandi sviði. Eins og sérstaklega hv. þm. Eygló Harðardóttir benti á á fundi allsherjarnefndar er það auðvitað svo að lendi málið fyrir rest hjá Mannréttindadómstólnum í Strassborg verður farið vandlega yfir alla þætti málsmeðferðarinnar, allar ákvarðanir sem hafa verið teknar í þessu máli, bæði á vettvangi Alþingis og annars staðar. Þess vegna er þetta viðkvæmt og án þess að ég treysti mér til að segja fyrir um álit réttarfarssérfræðinga á þessu frumvarpi, ég ætla mér ekki að halda því fram að ég geti sagt til um hvað þeir hefðu sagt um málið, held ég að það hefði verið gagn að því fyrir nefndina að heyra slík sjónarmið, hugsanlega til að fá tillögur um breytingar, hugsanlega til að vera vissari í sinni sök og geta afgreitt málið frá sér í öruggri vissu um að allt sé í lagi. En það varð ekki niðurstaða meiri hluta allsherjarnefndar og það gagnrýni ég enn og aftur.