139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði að þetta væri alfarið pólitískt mál, pólitísk réttarhöld. Ég er ekki alveg sammála því. Auðvitað er það vitað að Geir H. Haarde var formaður Sjálfstæðisflokksins og í skjóli Sjálfstæðisflokksins sat hann sem forsætisráðherra. Að því leyti til er þetta pólitískt mál og maður sér líka hérna að það eru sjálfstæðismenn sem hafa haft sig mest í frammi í þessu máli. (Gripið fram í.) Nei, ég held nefnilega að það séu fleiri þættir. Þetta mál er nefnilega líka eins og ég gat um í gær helgað af heift og reiði. Það stafar af heift og reiði sem var mjög rík í þjóðfélaginu á þeim tíma og ég tel að ákærurnar helgist að einhverju leyti af því. Það er mjög slæmt. Það sem eiginlega sannar það er hversu rökhugsun og skynsemi fer lönd og leið, hvað þetta er illa undirbúið, hvað vinnslan er léleg, hversu mikið klúður er í málinu. Það kom fram aftur og aftur, og verið var að veita afbrigði. Af hverju í ósköpunum þurfti afbrigði? Vegna þess að menn voru ekki búnir að hugsa málið til enda. Það er eins og einhverjir viðvaningar hafi staðið að því að skipuleggja allt þetta ferli varðandi málareksturinn og annað slíkt. Ég er þess vegna ekki sammála hv. þingmanni í því að þetta sé alfarið pólitískt mál. Þetta er líka mál sem er helgað af heift og reiði.