139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að í sjálfu sér sé ekki mjög mikill munur á skoðunum okkar hv. þm. Péturs H. Blöndals í þessum efnum þó að við kjósum kannski að nota mismunandi orð um þetta. Orð mín sem hann vitnar til voru þau að rætur þessarar málsóknar eru að mínu mati pólitískar, ég fer ekki ofan af því. Það var pólitískur leiðangur sem lagt var upp í síðasta haust. Inn í það kunna að blandast alls konar tilfinningar, heift og reiði, ég skal ekki segja um það. En eins og ég horfði á atburðarásina í haust fannst mér um að ræða pólitíska aðgerð af hálfu tiltekinna pólitískra afla og ég fer ekki ofan af því að þannig var það.

Ég get hins vegar tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þeir sem á þessu máli hafa haldið hafa misstigið sig í fjölmörgum atriðum. Það er kannski utan við efni þessa þingmáls sem beinlínis liggur hér fyrir. En eins og ég vék að í ræðu minni við 1. umr. málsins tel ég að í afar mörgum atriðum hafi menn, sem sáu um og hafa haft með höndum framkvæmd málsins eftir að Alþingi tók ákvörðun um að höfða málið, misstigið sig og verið að fara í mjög langsóttar túlkanir á ákvæðum laganna sem ég skil ekki alveg í. Ég vék að því í ræðu minni við 1. umr. að hugsanlega hefði það tafið (Forseti hringir.) málið því að eins og við munum eru núna sjö mánuðir liðnir frá því að Alþingi ákvað málshöfðun.