139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan og fleiri ræðum er ég þeirrar skoðunar að ýmsir aðrir kostir í stöðunni hefðu augljóslega verið verri en sá sem hér liggur fyrir. Ég leyfi mér hins vegar að benda á að þessi leið er langt frá því gallalaus þó að hún kunni að vera, og ég legg áherslu á að ég segi kunni að vera, skárri en ýmsar aðrar sem hafa verið á borðinu. Þetta er minna inngrip í málsmeðferðina en t.d. að kjósa nýja landsdómsmenn. Engu að síður er þetta ákvörðun þessa Alþingis um að tilteknir einstaklingar dæmi í þessu tiltekna máli, því að auðvitað er það svo að þó að lagabreytingin sé að formi til almenn breyting tekur hún bara til eins máls. Það er hugsanlegt að hún geti tekið til einhverra mála einhvern tíma í framtíðinni. Það er hugsanlegt en það sem er raunverulegt er að eitt mál er til meðferðar og ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er flutt er auðvitað sú að menn hafa áhyggjur af framvindu þess máls vegna þess að kjörtímabil núverandi dómara rennur út í næstu viku. Þetta er ekkert flókið. Það vita allir að þetta er staðan og það vita allir að þetta þingmál er flutt út af áhyggjum manna af því tiltekna landsdómsmáli sem nú er í gangi.