139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins ítreka það að Alþingi sem sat hér þann 11. maí 2005 valdi í einu hljóði samhljóða átta einstaklinga og varamenn til að skipa landsdóm. Sá dómur skyldi taka við málum ef upp kynnu að koma. Mál kom upp, kom í hendur þess landsdóms sem kjörinn var fyrir sex árum. Það er ekki venja að skipta um dómendur eða skipta um hest í miðri á, eins og oft er sagt, heldur eru fordæmi fyrir því og hefðir að láta þá dómendur sem hafa tekið upp mál og eru að vinna mál ljúka því máli. Það er sú ákvörðun sem hér er verið að leggja til að verði fest í lög hvað varðar landsdóm, ekki aðeins þann landsdóm sem nú starfar heldur alla landsdóma svo lengi sem lögin verða óbreytt.