139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:22]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði við 1. umr. um þetta mál þá er með algerum ólíkindum að á Alþingi Íslendinga sé verið að ræða um frumvarp til laga um breytingu á landsdómslögunum einum sjö eða átta mánuðum eftir að meiri hluti Alþingis tók ákvörðun um að draga fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fyrir landsdóm og krefjast þar refsinga yfir honum fyrir störf sín í þágu þjóðarinnar.

Það er viðbúið, eins og ég spáði reyndar í umræðunni um ákærurnar, að þessi málarekstur allur muni taka mun lengri tíma en efni stóðu til og lýst var yfir af hálfu þeirra sem báru ákærutillöguna fram því eins og ég sagði áðan nú sjö eða átta mánuðum eftir að hún var samþykkt er enn verið að fjalla um það að gera tillögur um að landsdómslögunum verði breytt.

Það eitt út af fyrir sig er mjög ámælisvert og náttúrlega ákaflega óþægilegt fyrir þann einstakling sem í hlut á. Það er ekkert gamanmál að vera borinn sökum og vera sakborningur í máli fyrir dómi og það er heilagur réttur þess sem í þeirri stöðu lendir að mál hans fái hraða málsmeðferð í gegnum dómskerfið til að endanleg niðurstaða fáist og til að sakborningurinn þurfi ekki að sæta því að hanga í lausu lofti með sína stöðu gagnvart réttvísinni.

Tilefni þessa frumvarps er, eins og hér hefur komið fram, þau pólitísku réttarhöld sem meiri hluti Alþingis ákvað að efna til í september sl. Ég hef lýst þeirri skoðun minni áður í umræðum um þetta landsdómsmál, og ég ítreka þá skoðun mína, að þegar meiri hluti alþingismanna ákvað að samþykkja það að draga Geir H. Haarde, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, fyrir landsdóm þá hafi íslensk stjórnmál tekið á sig ógeðfelldari mynd en áður hefur sést á hinu háa Alþingi. Ég stóð í þeirri trú í septembermánuði sl. að tími pólitískra réttarhalda og ofsókna væri liðinn undir lok en ég hafði rangt fyrir mér á þeim tíma eins og niðurstaðan sýnir. Það er alveg ljóst og ekki er hægt að neita því að landsdómsmálið er runnið undan pólitískum rifjum. Í því felast pólitískar ofsóknir á hendur Geir H. Haarde. Það eru stór orð af minni hálfu en ekki þarf annað en fara yfir það hvernig og með hvaða hætti hv. þingmenn gengu fram í atkvæðagreiðslunni um ákærutillöguna.

Ég var ósammála því að ákæra ætti ráðherrana fjóra, nú fyrrverandi ráðherra. Ég var ósammála því mati þeirra sem greiddu tillögunni atkvæði sitt og vildu draga ráðherrana fjóra fyrir landsdóm. En þegar í ljós kom að fjórir hv. þingmenn Samfylkingarinnar opinberuðu að þeir stæðust ekki það próf sem fyrir þá var lagt í umfjöllun um þetta mál, það er að segja það að fara með ákæruvald í málinu, og greiddu atkvæði eftir flokksskírteinum, var það staðfest að hér var um pólitísk réttarhöld að ræða og pólitíska aðför að þeim fyrrverandi hæstv. ráðherra sem nú bíður örlaga sinna fyrir landsdómi. Þetta þekkja hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Skúli Helgason og Helgi Hjörvar. Ég hef haldið því fram áður, og ég geri það aftur, að þau hafi í þessu máli greitt atkvæði eftir flokksskírteinum en ekki samkvæmt efni máls.

Það komu fram áskoranir á hendur okkar sjálfstæðismanna að grípa til sömu meðala og þessir hv. þingmenn beittu og það hefðum við í sjálfu sér getað gert með því að greiða atkvæði með ákærutillögu á hendur fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og láta hana þar með fylgja fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fyrir landsdóm. En það gerðum við ekki vegna þess að menn réttlæta ekki ranglæti sem einn hæstv. fyrrverandi ráðherra er beittur með því að beita annan fyrrverandi hæstv. ráðherra sama ranglæti. Og ég er stoltur af því að hafa ekki tekið þátt í slíkum leik.

Þetta mál allt er að mínu mati ákaflega sorglegt, bæði hvernig til þess er stofnað og sömuleiðis hvernig á því hefur verið haldið frá upphafi. Þetta eru pólitísk réttarhöld og þetta verða pólitísk réttarhöld.

Í aðdraganda þess að ákæruskjalið eða ákærutillagan var lögð fram, og þegar fyrir henni var mælt, var það mat meiri hluta þingmannanefndar, undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar, að ekki væri þörf á því að gera breytingar á landsdómslögunum. Það kom skýrt fram í ræðu hv. þingmanns og það kom skýrt fram í yfirlýsingum hæstv. ráðherra um þetta mál. Sú niðurstaða var ekki fengin bara einn, tveir og þrír. Þingmannanefndin hafði vikum eða mánuðum saman legið yfir þessu máli og komst að þessari tilteknu niðurstöðu, að ekki þyrfti að breyta landsdómslögunum. Síðan þingmannanefndin komst að þeirri niðurstöðu hafa verið lögð fram tvö frumvörp til laga á Alþingi til breytinga á landsdómslögunum. Það gerði hæstv. innanríkisráðherra fyrst með frumvarpi upp á nokkrar greinar sem lutu að störfum dómaranna við landsdóm en einnig var gerð tilraun til að breyta réttarfarsreglunum og málsmeðferðarreglum fyrir landsdómi eftir að málið hafði verið hafið. Það var sem sagt gerð tilraun af hálfu hæstv. innanríkisráðherra til að breyta leikreglunum í miðjum leik. Það sem var alvarlegt við þann frumvarpsflutning var að forseti landsdóms hafði frumkvæði að því að út í slíkar breytingar yrði farið og við umræður um málið kom í ljós að saksóknari Alþingis hafði einnig komið að þeirri tillögusmíð.

Nú liggur fyrir annað frumvarp til breytinga á landsdómslögunum sem snýr einungis að því að lengja setu eða umboð dómara við landsdóm meðan málið yfir Geir H. Haarde er til meðferðar. Á þessu er auðvitað enginn bragur, virðulegi forseti. Þessi málsmeðferð á ekkert skylt við það sem nefnt hefur verið réttlát málsmeðferð og á sér heldur enga samsvörun í því að reyna að tryggja réttaröryggi þess sem í hlut á, sem í þessu tilviki er Geir H. Haarde.

Við meðferð málsins innan hv. allsherjarnefndar óskuðum við eftir því, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, að kallaðir yrðu gestir á fundi nefndarinnar til að segja álit sitt, og einungis munnlegt álit sitt, á því frumvarpi sem er til umfjöllunar. Ég taldi mikilvægt að prófessor í lögum, annaðhvort í réttarfari eða í stjórnskipunarrétti, yrði fenginn til að segja álit sitt á frumvarpinu en við því var ekki orðið af hálfu forustu nefndarinnar. Ég óskaði líka eftir því að verjandi Geirs H. Haarde, Andri Árnason hæstaréttarlögmaður, yrði fenginn til að koma fram með álit sitt á frumvarpinu en þeirri beiðni var einnig hafnað. Ég taldi það mikilvægt og eðlilegt — og þó ekki væri nema fyrir kurteisissakir — að gefa verjanda sakborningsins tækifæri til að segja álit sitt á frumvarpinu og þeirri lagabreytingu sem það felur í sér. En þeirri tillögubeiðni var líka synjað.

Í þriðja lagi óskaði ég eftir því að saksóknari Alþingis, Sigríður Friðjónsdóttir, yrði kölluð á fund nefndarinnar til að veita sambærilegt álit. Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir því að saksóknari Alþingis yrði kallaður á fund nefndarinnar er sú að einhverra hluta vegna hefur sá ágæti saksóknari ekki legið á liði sínu við að gefa út opinberar yfirlýsingar og hvatningar til löggjafarvaldsins um að ráðast í breytingar á landsdómslögunum, sem er auðvitað mjög sérstakt. Að saksóknari Alþingis skuli vera að setja fram kröfur um það, eftir að ákæra hefur verið samþykkt á þinginu, að lögunum sem dómsmálið fjallar um og réttarhöldin eiga að fara eftir verði breytt. Það er ekki hlutverk saksóknara Alþingis að koma fram með kröfur eða áskoranir á hendur þinginu um að breyta annaðhvort málsmeðferðarreglum eða öðrum þeim þáttum sem þetta landsdómsmál varðar, það er ekki hennar hlutverk.

Hennar hlutverk er að taka við því ákæruskjali sem hér var samþykkt, hefja málið og flytja á þeim grundvelli en hefur ekkert með það að gera að ráðist sé í einhverjar lagabreytingar. Af þeirri ástæðu hefði ég talið eðlilegt að saksóknari Alþingis yrði kallaður fyrir nefndina til að fjalla um þetta frumvarp fyrst hún sjálf hafði frumkvæði að því að kalla á slíkar lagabreytingar. En það var eins og með hina beiðnina að þessari var hafnað og ég skil ekki hvers vegna ekki var fallist á þessar beiðnir. Ég skil ekki hvers vegna meiri hluti nefndarinnar var svo stressaður að koma þessu máli í gegn að hann gat ekki séð af einum klukkutíma til að tala við þessa þrjá gesti og fá álit þeirra á frumvarpinu.

Það hefði verið mjög mikilvægt fyrir okkur sem hér erum og þurfum að fjalla um þetta mál vegna þess að sérstaða landsdómsmálsins er svo mikil. Þetta dómsmál er allt annars eðlis en önnur dómsmál sem rekin eru í landinu, hvort sem það er á efra eða neðra dómstigi. Sérstaðan felst ekki bara í því að í landsdómsmálinu var blásið til pólitískra réttarhalda. Sérstaðan felst ekki síður í því að það eru hv. alþingismenn sem samþykkja að ákæra skuli fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra. Það eru alþingismenn sem kjósa dómarana sem hefur verið fengið það hlutverk að rétta yfir þeim ákærða, sakborningnum. Það eru alþingismenn sem leggja fram tillögur um að breyta lögunum sem gilda um landsdóm, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, um þessi réttarhöld, leggja til að þeim lögum verði breytt. Og það eru alþingismenn sem gáfu út ákærurnar eða samþykktu ákæruskjalið sem leggja til að umboð þeirra dómara sem eiga að dæma í málinu verði framlengt. Þetta allt saman er mjög sérstakt og sérstætt.

Þegar þannig er haldið á málum leyfi ég mér að halda því fram að það sé tómt mál að tala um réttláta málsmeðferð í þessu samhengi. Það er mjög fátt við þessa málsmeðferð sem er réttlátt. Og að réttaröryggi manna sé tryggt — ég leyfi mér að halda því fram að þetta fyrirkomulag, hvenær sem því var komið á fót, standist ekki þær grundvallarkröfur sem gerðar eru í mannréttindasáttmálum og mannréttindaákvæðum, hvort sem það er í okkar stjórnarskrá á Íslandi eða í þeim mannréttindasáttmálum sem við höfum annaðhvort lögfest eða undirgengist með öðrum hætti. Að mínu mati er tómt mál að tala um þetta mál í einhverju samhengi við réttláta málsmeðferð vegna þess að ekkert í þessu máli er réttlátt, ekki neitt. Við vitum hver tilgangurinn með frumvarpinu er. Hann er sá að auðvelda það, hv. þm. Mörður Árnason, að hægt sé að koma lögum yfir hinn meinta sakborning Geir H. Haarde. Það er bara einfaldlega þannig.

Menn velta því fyrir sér hvort sú tillaga sem liggur fyrir í þessu frumvarpi sé besta leiðin út úr þeim vandræðum sem þeir sem standa að þessari ákæru gátu valið. Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur velt því fyrir sér hvort þetta sé skásta leiðin út úr þeim vandræðum sem menn hafa komið sér í. Það kann vel að vera að það sé skárra að lengja umboð dómaranna en kjósa þá upp á nýtt en báðar leiðirnar eru að mínu mati afleitar.

Það má halda því fram að sú tillaga sem frumvarpið mælir fyrir um sé gildishlaðin vegna þess að málareksturinn er hafinn. Við skulum ekki gleyma því. Þeir dómarar sem lagt er til að fái framhaldslíf, ef svo má segja, í þessu frumvarpi hafa komið að málinu. Þeir hafa kveðið upp úrskurð sem varðaði mikla hagsmuni fyrir sakborninginn Geir H. Haarde. Og bara sú ákvörðun, eftir að slíkur úrskurður hefur verið kveðinn upp, sem var sakborningnum í óhag, þeirra sem tóku ákvörðun um að ákæra Geir H. Haarde að framlengja umboð þeirra dómara, er til þess fallin að hægt sé að draga þær ályktanir að þeir sem styðja frumvarpið séu þar með að lýsa velþóknun sinni á dómstörfum þeirra sem nú sitja í landsdómi. Það má halda því fram. Það má líka halda því fram að þannig sé yrðu dómararnir kosnir upp á nýtt, þeir hinir sömu og komu að málinu í upphafi en líklega hefði verið best að draga þetta mál allt saman til baka og hefja það upp á nýtt, taka aðra ákvörðun á þinginu um það hvort ákæra ætti fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og þá þannig að það væri ljóst að þeir dómarar sem þyrftu að taka afstöðu til þeirrar ákæru hefðu þá verið skipaðir til nægilega langs tíma til að geta klárað málið svo að bragur væri á.

Virðulegi forseti. Þetta mál er miklum vandkvæðum bundið og ekki til mikils sóma, hvorki fyrir þingið eða þjóðina. Best færi á því að það færi veg allrar veraldar og menn mundu endurskoða þennan málatilbúnað allan frá upphafi til enda.