139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[13:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að frá því að hann tók sæti á Alþingi hefði hann verið talsmaður þess að bæta hér vinnubrögð. Hann kom einnig inn á það að með samþykki þessa frumvarps sé réttaröryggi sakborningsins tryggt. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort honum hafi fundist að frá því að sú ákvörðun var tekin að ákæra Geir H. Haardes, sem ég tel eitt mesta níðingsverk Alþingis alla tíð, hafi réttaröryggi sakborningsins verið tryggt. Ef ég man rétt tók það mjög langan tíma og þurfti að ganga eftir því að sakborningi yrði skipaður verjandi. Hver er skoðun hv. þingmanns á því?

Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu gert athugasemd við það að ekki hefðu verið kallaðir sérfræðingar fyrir allsherjarnefnd í meðförum málsins, (Forseti hringir.) en hv. þingmaður sagði að hann hefði leitað sér sjálfur persónulegra upplýsinga. Hefði ekki verið eðlilegra að kalla sérfræðinga fyrir allsherjarnefnd?