139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[13:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Varðandi fyrra atriðið er í sjálfu sér erfitt fyrir mig að meta hvort réttur hafi verið fyrir borð borinn gagnvart sakborningi á einhverjum stigum málsins. Ég tel reyndar ýmislegt í þessu máli óheppilegt, það hefði átt að skipa honum verjanda fyrr. Ég treysti mér ekki til að meta hvort það valdi einhvers konar réttarspjöllum í málinu. Það er annarra að dæma. Ég tel fullkomlega eðlilegt að verða við þeirri ósk sjálfstæðismanna að kalla til óháða sérfræðinga. Það sem ég benti hins vegar á í ræðu minni var að það var ekki gert fyrir saksóknarnefnd þegar við ræddum um að leggja fram þetta frumvarp. Ég taldi það einnig óþarfa vegna þess að ég hafði ekki heyrt í neinum sérfræðingi sem hafði út á frumvarpið að setja. En ég er alltaf talsmaður þess að (Forseti hringir.) vanda málsmeðferð og ef óskir eru um sérfræðinga á einfaldlega að verða við þeim.