139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[13:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svarað síðustu spurningunni heiðarlega, ég var einfaldlega staddur í útlöndum, eins og hv. þingmaður veit, þegar gengið var til atkvæða á Alþingi.

Varðandi fyrri spurninguna um hvort málsmeðferðin hefði á einhvern hátt verið brotin vegna þess að það tafðist að skipa sakborningi verjanda þá er það einfaldlega úrlausnarefni landsdóms að meta slíkt. Ég tel mig ekki hafa forsendur til að skera úr um hvort það valdi réttarspjöllum eða ekki. Ég nefndi það í fyrri ræðu minni að ég teldi þetta óheppilegt, reyndar tel ég líka óheppilegt að þetta frumvarp komi fram núna en hafi ekki farið í gegn í meðförum allsherjarnefndar á fyrri stigum málsins. (Forseti hringir.)

Ég vil svo taka fram, virðulegi forseti, að ég met það svo sjálfur og ég leitaði til sérfræðinga um það (Forseti hringir.) að þetta væri rétt og eðlilegt í þeirri stöðu sem við erum komin í.