139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[13:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef málið kemur fyrir Mannréttindadómstól Evrópu er mér til efs að hann komi til með að fetta fingur út í þá aðgerð sem við erum að gera í dag. Ég held að Mannréttindadómstóllinn fagni því, ef þannig má að orði komast, (Gripið fram í.) að sett sé fram lagaákvæði sem tryggir réttaröryggi sakborningsins. Það að breyta lögum til að taka af skarið um að þeir dómarar sem hefja málið klári það er einfaldlega liður í því að tryggja réttaröryggi sakborningsins. Það er meginregla í réttarfari að það sé milliliðalaus málsmeðferð og við erum að tryggja það. Ég sé ekki og ég hef ekki heyrt nokkurn sérfræðing, ekki einn einasta, halda öðru fram. (Gripið fram í.) Sjálfstæðismenn hafa komið fram í dag, og mér þykir það reyndar miður, og reynt að ýja að því á hógværan hátt reyndar (Forseti hringir.) að hér sé verið að gera einhvers konar mistök en svo er ekki. (Forseti hringir.) Ég taldi mig því nauðbeygðan til að koma í ræðu til að útskýra og rökstyðja (Forseti hringir.) að svo væri ekki.