139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma inn á í síðari ræðu minni við þessa umræðu. Það er rétt til að byrja með að bæta aðeins — ég vil kannski ekki segja að ég sé að leiðrétta minn ágæta félaga hv. þm. Einar K. Guðfinnsson en ég vil aðeins fylla inn í lýsingu hans á afdrifum þess frumvarps sem hæstv. innanríkisráðherra, þá dómsmálaráðherra, flutti í haust því að formlega séð held ég að það hafi ekki verið kallað til baka, það er einfaldlega í 1. umr. enn þá og hefur ekki komið til nefndar. Þess misskilnings gætti nokkuð í umræðum fyrr í dag að málið hefði endað í allsherjarnefnd. Svo var ekki, málið fór aldrei til allsherjarnefndar. Frumvarpið var lagt fram 18. nóvember og ég hygg að það hafi verið tekið til 1. umr. 24. nóvember.

Ef ég man þá sögu rétt var sú umræða ekki löng. Hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu og tveir eða þrír þingmenn aðrir fóru í ræður, síðan var umræðunni frestað og hefur verið í einhverri frestun síðan. Ég leiddi getum að því við 1. umr. um það frumvarp að það hefði verið mat ábyrgðarmanna frumvarpsins, tillöguflytjenda og hugsanlega annarra, að óráðlegt væri að halda áfram með málið í ljósi þess að verið væri að breyta leikreglum í miðju kafi. Ef það mat mitt er rétt að þær ástæður hafi búið að baki því að málið var ekki tekið upp aftur á þeim fimm mánuðum sem liðnir eru frá því að frumvarpið var flutt, þá er það gott og vel og sýnir, ef þetta er rétt mat hjá mér, að flutningsmaður og aðrir samherjar hans hafi kannski áttað sig á því að það gat haft alvarlegar afleiðingar að gera þetta með þeim hætti. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson minnti á fól það í sér ekki bara eina breytingu heldur átta efnislegar breytingar, ef ég man rétt, á lögunum um landsdóm, sumar veigalitlar, aðrar veigameiri. En burt séð frá því held ég að menn hafi, og ég vil draga þá ályktun af örlögum þess frumvarps, áttað sig á því að óráðlegt væri að fara í breytingar á málsmeðferðarreglum í miðju kafi.

Sú breyting sem er lögð til í því frumvarpi sem við ræðum núna er alger lágmarksbreyting, við getum orðað það þannig miðað við allar þær hugmyndir sem uppi voru. Það er greinilega ætlun flutningsmanna að breyta eins litlu og kostur er en engu að síður, eins og ég hef bent, á felur samþykkt frumvarpsins á þessu þingi í sér að Alþingi er með pósitífum hætti að taka ákvörðun um að tilteknir einstaklingar sem voru kjörnir í landsdóm fyrir sex árum sitji áfram og ljúki meðferð þess máls sem hafið er fyrir landsdómi. Það er að vissu leyti inngrip í málið, miklu minna inngrip en aðrar breytingar, eins og t.d. þær sem fólust í frumvarpi hæstv. ráðherra í haust, þetta er miklu minni breyting, miklu minna inngrip og minna inngrip en ef kjörnir væru nýir menn til að fara með meðferð þessa tiltekna máls. Að því leyti er þetta skárra en inngrip er þetta engu að síður. Það sem gerir þetta sérstakt, eins og ég hef nefnt áður við þessa umræðu, er að ólíkt því sem gerist varðandi aðrar réttarfarsbreytingar þá snertir þetta eðli málsins samkvæmt bara eitt tiltekið mál sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um að höfða, þó að breytingin eins og hún er lögð fram sé formlega almenn lýtur hún bara að einu tilteknu máli. Hún er líka sérstök og óneitanlega nokkuð viðkvæm í ljósi þess að löggjafinn og þingið sem fjallar um frumvarpið og þar með um þá tilteknu einstaklinga sem sitja eiga í landsdóminum er sama þing og tók ákvörðun um að fara út í þennan málarekstur á sínum tíma. Þess vegna er þetta í eðli sínu töluvert ólíkt og viðkvæmara en aðrar þær breytingar á réttarfarslöggjöf þar sem verið er að framlengja umboð dómara. Að þessu leyti er þetta ekki alveg sambærilegt. Ég held að við verðum að hafa það í huga.

Eins og ég hef svo sem sagt fyrr við þessa umræðu lítur þetta út fyrir að vera frá mínum bæjardyrum séð skárri leið en ýmsar aðrar sem uppi hafa verið og betri en ýmsar aðrar tillögur sem voru á sveimi í aðdraganda málsins. Það hefði vissulega verið betra ef við hefðum haft meiri tíma til að fjalla um það. Ég ætla alls ekki að áfellast flutningsmenn frumvarpsins, félaga mína í saksóknarnefnd sem tóku að sér að hafa ákveðið frumkvæði í málinu nú á síðustu stigum. Reyndar er ég ekki viss um að það sé hluti af skyldum þeirra sem fulltrúa í saksóknarnefnd að gera það, það er ekkert augljóst í því en hvað um það, þeir tóku sig til og gerðu þetta.

Dráttur málsins fram að því er hins vegar dálítið sérstakur af því að þegar hæstv. ráðherra lagði fram sitt frumvarp í nóvember var alla vega ljóst að menn voru þegar farnir að hafa áhyggjur af kjörtímabili dómaranna. En svo líður desember, janúar, febrúar, mars og apríl og ekkert gerist. Svo kemur málið inn núna í þessari viku og þá verðum við að klára það á tveimur sólarhringum. Það er svolítið sérstakt. Ég játa að þetta fer dálítið í taugarnar á mér, sérstaklega vegna þess að því er borið við að ekki hafi verið hægt að fá gesti á fundi nefndarinnar út af tímaskorti. En það hefur legið í loftinu í alla vega fimm mánuði að vilji stæði til að gera einhverja breytingu í þessa átt. Þetta er því allt saman dálítið sérstakt.

Varðandi sjónarmið um gesti höfum við hv. þm Sigurður Kári Kristjánsson margtekið fram að óskir okkar gengu ekki út á það að fá einhverjar langar raðir af gestum og miklar greinargerðir, enda kannski ekki tilefni til þess miðað við málið. Okkar ósk var einfaldlega sú að nefndin sem slík viðhefði þau vönduðu vinnubrögð að ræða við einhvern sérfræðing, helst réttarfarssérfræðing eða réttarfarssérfræðinga, og ég er þeirrar skoðunar að því hefði mátt koma við trúlega með nokkurra klukkustunda fyrirvara annaðhvort í gær eða snemma í morgun, það hefði ekki átt að þvælast neitt óskaplega fyrir mönnum. Mér finnst þessi — hvað eigum við að segja, taugaveiklun sem var á afgreiðslu meiri hluta allsherjarnefndar ekki tæk, enda hafa menn viðurkennt, m.a. hv. þm. Mörður Árnason, að óskir okkar, a.m.k. hluti þeirra, hafi að hans mati verið málefnalegar og eðlilegar og virtist leiður yfir því að hafa ekki getað orðið við þeim. En samt vantaði frekari skýringar á því hvers vegna allt þetta var svo ómögulegt.

Herra forseti. Ég kemst ekki lengra í þessu núna en ég held hins vegar að það hefði verið mun tryggara að fá utanaðkomandi álit á því hvort vera kunni að einhver réttarspjöll geti stafað af þeirri breytingu sem hér er lögð til.