139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á og sagði réttilega að þegar niðurstaðan varð sú að kæra einungis einn hæstv. fyrrverandi ráðherra lágu þrjú álit þingmannanefndar fyrir, í fyrsta lagi að ákæra fjóra ráðherra, í öðru lagi þrjá ráðherra og í þriðja lagi engan. Mín skoðun hefur alla tíð verið sú að fyrst engin þessara tillagna var samþykkt hefði þingið átt að falla frá ákærunni.

Eins og ég sagði í ræðu minni og ég get staðið við hvar sem er og hvenær sem er en ég fylgdist ég mjög vel með í þingsalnum, sat nánast undir hverri einustu ræðu allan tímann og öllum andsvörum, þá afhjúpaðist í atkvæðagreiðslunni það versta sem hefur gerst á þingi.

Ég saka ekki hv. þm. Eygló Harðardóttur, sem kom í andsvar við mig, um að hún hafi ekki greitt atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu. En ég hef tilfinningu fyrir því að fyrir atkvæðagreiðsluna hafi verið handvalið hvernig menn greiddu atkvæði og hvernig hún skyldi enda. Það hafi verið ákveðið af sumum með hrossakaupum, enda sáum við hvernig atkvæðagreiðslan var. Þetta er mín skoðun eftir að hafa upplifað það sem gerðist, hið dapurlegasta verk sem Alþingi hefur nokkurn tíma framkvæmt.

Ég vil ítreka það sem ég sagði að eðlilegra hefði verið, eftir að engin af tillögum þingmannanefndarinnar var samþykkt, að fallið yrði frá ákæru á hendur fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra.