139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um landsdóm, nr. 3/1963, með síðari breytingum. Það frumvarp sem er til umræðu lætur ekki mikið yfir sér en það snertir hins vegar landsdóm sem nú er ætlunin að kalla saman í fyrsta sinn.

Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að það er afar sérstakt hvenær og með hvaða hætti þetta frumvarp kemur fram. Alþingi og alþingismenn verða að fara að velta fyrir sér því verklagi sem hér ríkir í einstaka málum og verða að átta sig á því að ekki er boðlegt að leggja fram frumvarp, taka það til umræðu með afbrigðum, en segja jafnframt að tíminn sé svo skammur að ekki vinnist tími til að kalla til sérfræðinga í allsherjarnefnd til að fara yfir og gefa skoðun sína á því hvort það sem hér er verið að gera kunni síðar meir að falla undir það sem menn hafa kallað lagaspjöll. Að Alþingi skuli ætla á örfáum dögum að ljúka slíku máli á þennan hátt er, frú forseti, í hæsta máta óásættanlegt.

Frú forseti. Slíkt vinnulag er algjörlega óboðlegt, það er þinginu algjörlega óboðlegt að fara fram með þessum hætti. Það er ekki eins og þeim hv. þingmönnum sem leggja frumvarpið fram hafi ekki verið ljóst frá því að ákæra var gefin út þann 28. september 2010 á hendur fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, Geir H. Haarde, að hugsanlega þyrfti að skoða hvort málinu yrði lokið fyrir 11. maí 2011 þegar kjörgengi þeirra sem sæti eiga í landsdómi og kosning þeirra rynni út, kjörtímabilinu væri lokið og dómurinn ekki lengur virtur.

Þann 28. september ákváðu sumir hv. alþingismenn að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra ríkisstjórnar Íslands, Geir H. Haarde. Flutt var þingsályktunartillaga um málshöfðun gegn fjórum og önnur þingsályktunartillaga gegn þremur en aðeins einn fyrrverandi ráðherra var ákærður. Í fyrsta skipti í sögunni frá því að landsdómslögin voru sett er landsdómur kallaður saman til þess að fjalla um ákæru á hendur ráðherra vegna hugsanlegra brota í starfi.

Virðulegi forseti. Menn drógu í efa hvort það stæðist lög að nýtt þing var sett 1. október 2010 og menn kusu saksóknara og varasaksóknara í ákærumáli á hendur fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra þann 12. október vegna þess að lesa mætti út úr þeirri grein landsdómslaga að kjósa ætti saksóknara á sama tíma og ákæran væri lögð fram. Við erum aftur stödd hér og nú á þeirri vegferð að menn velta fyrir sér í ræðustól Alþingis hvort það sem verið er að gera stangist hugsanlega á við lög. Aftur í sama máli sem er jafnstórt og yfirgripsmikið og einstakt, eins og það að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra, skuli kosning saksóknara og varasaksóknara og hugsanlega breytingar á lögum um landsdóm orka tvímælis í lagalegu tilliti.

Frú forseti. 12. október var saksóknari og varasaksóknari kjörinn. Á sama tíma var saksóknarnefnd Alþingis kjörin og í henni eiga sæti þeir hv. þingmenn sem leggja fram þetta frumvarp ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni sem ekki stendur að frumvarpinu.

Það er annað, frú forseti, í málinu sem vekur líka furðu. Það er að núverandi hæstv. innanríkisráðherra, þá hæstv. dómsmálaráðherra, lagði fram frumvarp 18. nóvember 2010, frumvarp til laga um breytingar á lögum um landsdóm. Hann mælti fyrir því 24. nóvember 2010. Þá varð líka töluverð og mikil umræða um að þá kosinn saksóknari Alþingis sem og aðrir, forseti landsdóms, hefðu á einn eða annan hátt haft aðkomu að því hvernig breyta ætti lögum um landsdóm þann hvar þeir báðir koma að. Það er því ekkert, frú forseti, í þessum ferli frá því að ákæran var samþykkt 28. september 2010 — allt verklag er snýr að kosningu saksóknara, frumvarpi innanríkisráðherra og nú þessu frumvarpi, ekki er annað hægt að segja um þennan feril en að hann sé varðaður vandræðum. Það er vandræðagangur í meðferð þessa máls frá því að við kjósum saksóknarann og allt virðist orka tvímælis.

Ég trúi því ekki, frú forseti, fyrr en það verður sýnilegt á hinu háa Alþingi að menn ætli sér að keyra í gegn þessar breytingar á lögum um landsdóm og kalla ekki til sérfræðinga til að skoða frekar það sem hér er verið að leggja til, hvort það kunni hugsanlega að valda því að þegar fram líða stundir verði það metið sem lagaspjöll. Ekki er ég löglærð heldur leikmaður í þessu tilviki en það nægir, frú forseti, að hér koma löglærðir menn í ræðustól Alþingis og geta ekki fullvissað okkur hin um hvort um lagaspjöll sé að ræða eða ekki. Ég trúi því ekki að það sé þá ekki hægt að gera hlé á fundum Alþingis, eins og í dag og á morgun — það eru reyndar ekki fundir í þingsal á morgun — og kalla til sérfræðinga til allsherjarnefndar, fleiri en einn og fleiri en tvo, og fara yfir það frumvarp sem liggur fyrir, ganga úr skugga um hjá fleirum en einum hver skoðun þeirra er á frumvarpinu og koma síðan aftur með það inn. En að greiða atkvæði á Alþingi um lagafrumvarp sem tekið er inn með fyrirvara af því að það kemur svo seint og tími vinnst ekki til þess að kalla til einstaklinga til að fjalla um það í allsherjarnefnd er ekki boðlegt.

Frú forseti. Ég segi það enn og aftur: Það er ekki boðlegt að unnið sé á Alþingi með þessum hætti. Þessi vinnubrögð eru Alþingi til vansa, algjörlega til vansa, og menn verða að átta sig á því, hvort sem þeim líkar það betur eða verr, hvort sem það eru þeir sem lögðu fram þingsályktunartillögu um ákæru þar sem í lok þeirrar umræðu allrar var einn maður ákærður, einn ráðherra ákærður af þeim fjórum sem upp var lagt með í þá vegferð, þá verða menn að geta staðið í lappirnar. Alþingi sem ákveður að ákæra fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn hlýtur að sjá sóma sinn í því að ganga þannig frá málum að ekki þurfi að orka tvímælis að þær breytingar sem gerðar eru séu í lagi og standist lagalega.

Frú forseti. Ég sat í þeirri nefnd sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég veit að það var engum auðvelt þegar kom að þeim lokahnykk sem varð í þeirri nefnd. Ég er ekki að brjóta neinn trúnað við þá samnefndarmenn mína þegar ég segi svo, það var engum auðvelt. Menn höfðu ólíkar skoðanir á því á hvern hátt ætti að fara með málið í lokin og nefndin klofnaði. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni töldum að engan ráðherra ætti að ákæra, aðrir töldu fjóra og sumir töldu þrjá. Þingsályktunartillögurnar fóru þannig að einn var ákærður.

Það eitt að Alþingi ákveði að ákæra er svo stórt og mikið mál að við hljótum að bera siðferðislega ábyrgð á því að ganga þannig frá þeim þáttum er snúa að landsdómi sem fjalla á um ákæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, Geir H. Haarde, að þær breytingar sem verið er að gera á síðustu metrunum orki ekki tvímælis. Það hlýtur að vera spurn, frú forseti, hvers vegna í ósköpunum þetta mál kemur inn í þingið svona seint. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvers vegna frumvarp þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, núverandi hæstv. innanríkisráðherra, hefur ekki verið rætt síðan 24. nóvember. Hvað var það í því frumvarpi sem menn komust að raun um að mundi kollvarpa ákæru Alþingis frá 28. september? Vegna þess að það er kristaltært að eitthvað er í því frumvarpi sem gerir það að verkum að það er dregið til baka eða réttara sagt ekki rætt frekar vegna þess að einhverjir sérfræðingar einhvers staðar hafa komist að þeirri niðurstöðu að það frumvarp mundi væntanlega ógilda að málið færi fyrir landsdóm með þeim breytingum sem það frumvarp hefði haft í för með sér.

Þess vegna, frú forseti, væri æskilegt að fá svar við því í fyrsta lagi: Hvers vegna er þetta frumvarp að koma fram núna og við að ræða það 5. maí þegar kjörgengi þeirra dómara sem sæti eiga í landsdómi rennur út 11. maí og það hefur öllum verið ljóst síðan 2005 að svo væri? Það var öllum ljóst í september 2010, í október 2010 og í nóvember 2010 lá þetta ljóst fyrir. Þetta vinnulag, frú forseti, er gjörsamlega, og ég endurtek enn og mér er mikið niðri fyrir, þetta er algjörlega óboðlegt og Alþingi Íslendinga einfaldlega til háborinnar skammar.

Ég treysti því að forseti þingsins sjái til þess að þetta mál fari aftur til nefndar nú þegar og að til verði kallaðir til þess bærir sérfræðingar að skoða og kveða upp úr með það hvort hér sé hugsanlega verið að fara af stað með frumvarp sem síðar meir gæti flokkast undir lagaspjöll.

Ekki það, frú forseti, það ætti kannski að vekja með mér gleði ef ég sæi einhverja hugsanlega annmarka á því að landsdómur gæti komið saman og starfað og fjallað um það mál sem er ákæra á hendur Geir H. Haarde, og kannski er það svo. En ég er hér líka sem alþingismaður og þá gengur hlutverk manns lengra en persónulegar skoðanir manns og hugsanlega væntingar.

Frú forseti. Ég óska eftir því að forseti þingsins sjái til þess að sú setning að ekki sé tími til þess að kalla til sérfræðinga til að fara yfir þetta mál betur en gert hefur verið áður en gengið verður til atkvæða um það, að sú setning liggi ekki yfir okkur þingmönnum, hangi hér í loftinu eins og svipa um að tíminn sé of skammur.

Frú forseti. Það lætur lítið yfir sér í orðum þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um landsdóm, nr. 3/1963, með síðari breytingum. En verklagið, vinnulagið og hugsanlega það sem þessi litla breyting kann að hafa í för með sér er Alþingi til vansa.