139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:38]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið gert töluvert mikið úr því af hálfu þeirra sem flytja þetta mál og tala fyrir því að verið sé að tryggja sakborningnum Geir H. Haarde réttláta málsmeðferð og þeir sem flytja málið og styðja það vilja halda því fram að þeir séu að standa vörð um réttaröryggi Geirs H. Haardes. Ekki verður annað sagt en að í þeim fullyrðingum felist heldur síðbúin velvild flutningsmanna fyrir fyrrverandi. hæstv. forsætisráðherra sem þeir sjálfir ákváðu að ákæra einn manna og draga fyrir landsdóm.

Ég ákvað að kveðja mér hljóðs enn einu sinni til að fjalla aðeins um hugtakið réttlát málsmeðferð og réttaröryggi vegna þess að ég tel að fullyrðingar hv. þingmanna um að með þessu frumvarpi sé verið að standa vörð um réttaröryggi Geirs H. Haardes og treysta réttláta málsmeðferð séu rangar og að slíkar fullyrðingar standist ekki fyrir utan það hversu ótrúverðugur slíkur málflutningur er, sérstaklega þegar hann kemur úr munni þeirra sem töluðu fyrir því að hann yrði dreginn fyrir landsdóm.

Hér á landi eru í gildi lög um landsdóm og réttarfar landsdómslaga er ákaflega sérstakt. Ég hef haldið því fram í ræðum um þetta mál, bæði gerði ég það í umfjöllun minni um ákærutillöguna í september og líka í þeirri umræðu sem við eigum núna, að réttarfarsreglur landsdómslaga og öll sú framkvæmd sem þau lög byggja á standist ekki meginreglur nútímamannréttindareglna og meginreglur sem farið er eftir við meðferð sakamála.

Það er auðvitað mjög sérstakt og menn hljóta að sjá hversu vafasamt það fyrirkomulag er að alþingismenn taki ákvörðun um að ákæra þennan tiltekna einstakling. Auk þess kjósi þeir sömu alþingismenn og samþykktu ákæruna dómara til að rétta yfir hinum ákærða og sömu alþingismenn kjósa sér þar fyrir utan og þessu til viðbótar sérstakan saksóknara til að reka málið fyrir landsdómi. Þetta fyrirkomulag sem við búum við er ekki burðugt þegar það er mátað við meginreglur mannréttindasáttmála og stjórnarskrár um réttláta málsmeðferð. Það hefði einfaldlega verið betra ef menn hefðu betur borið gæfu til þess að endurskoða landsdómslögin áður en málið gegn Geir H. Haarde var höfðað, en það var niðurstaða þeirra sem sátu í þingmannanefndinni og mæltu fyrir tillögunni um að ákæra Geir H. Haarde að ekki þyrfti að gera neinar breytingar á landsdómslögunum, þau héldu. Síðan hafa verið lögð fram tvö frumvörp til þess, eigum við að segja að tjasla upp á núgildandi landsdómslög, þvert á það sem áður hafði verið sagt.

Það er til mikill litteratúr í lögfræði um réttláta málsmeðferð. Ég greip með mér eina bók sem skrifuð var árið 1999 af nýbökuðum hæstaréttardómara, Eiríki Tómassyni. Hún heitir Réttlát málsmeðferð fyrir dómi , ágætisrit þar sem fjallað er um meginregluna um réttláta málsmeðferð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar kemur margt athyglisvert fram þegar farið er yfir hvað felst í meginreglunni um réttláta málsmeðferð sem flutningsmenn þessa máls vilja meina að frumvarpið byggi á. Þar er t.d. lögð áhersla á þegar menn túlka meginregluna um réttláta málsmeðferð fyrir dómi að málsaðilar njóti jafnræðis í þeim málum sem þangað rata. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde njóti aðilar málsins ekki mikils jafnræðis og hafi ekki gert fram til þessa og ég mun koma nánar inn á það á eftir.

Mikil áhersla er líka lögð á það í túlkun á meginreglunni um réttláta málsmeðferð fyrir dómi að málsmeðferð sé fljótvirk, að málsmeðferðin dragist ekki úr hófi og að úrlausn fáist sem fyrst. Í þessu sambandi vil ég nefna að Alþingi ákvað að ákæra Geir H. Haarde í september árið 2010. Nú er maí árið 2011 og enn er verið að krukka í lögin sem réttarhöldin byggja á og það er í rauninni uppi vafi um hvort málið sé byrjað, hvort málareksturinn sé hafinn, hvort hann hafi hafist með ákvörðun Alþingis um að ákæra Geir H. Haarde eða hvort það gerist ekki fyrr en saksóknari Alþingis gefur formlega út ákæru en það hefur ekki enn þá verið gert einhverra hluta vegna.

Í þessari meginreglu er lögð mikil áhersla á að sjálfstæður og óvilhallur dómstóll fjalli um mál en mikil áhersla lögð á réttindi sakbornings samkvæmt 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar er t.d. tryggður réttur sakbornings til að fá vitneskju um ákæru sem hann sætir — en hún hefur í þessu máli ekki enn verið gefin út — og sömuleiðis rétturinn til að fá vitneskju um ákæru án tafar og vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök ákærunnar.

Það eru fjölmörg önnur atriði sem ég hef ekki tíma til að fjalla um sem Eiríkur Tómasson, hæstaréttardómari og prófessor, gerir grein fyrir í bók sinni Réttlát málsmeðferð fyrir dómi og eitt af því er auðvitað réttur sakbornings til þess að halda uppi vörnum og fá skipaðan verjanda. En hvernig var það í máli Geirs H. Haardes? Sá ágæti sakborningur fékk ekki skipaðan verjanda heldur þurfti að ganga á milli Heródesar og Pílatusar til að fá skipaðan verjanda í þessu máli. Það endaði með því að hann þurfti að senda inn kæru til að treysta réttarstöðu sína með þeim hætti og til að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Maðurinn fékk ekki einu sinni skipaðan verjanda og svo tala menn um það hér, þeir sem mæltu fyrir því að Geir H. Haarde yrði ákærður fyrir landsdómi, að þeir séu með þessu máli að tryggja honum réttláta málsmeðferð og standa vörð um réttaröryggi hans.

Virðulegi forseti. Það er bara þannig að öll málsmeðferð samkvæmt landsdómslögunum er ekki réttlát, hún er óréttlát. Það er ekki eðlilegt að alþingismenn ákveði að gefa út kærur á hendur mönnum, að sömu menn kjósi dómara og sömu aðilar kjósi sér síðan saksóknara til að koma lögum yfir sakborninginn, þann ákærða. Þar við bætist að þessir sömu alþingismenn hafa reynt að breyta lögunum eftir að leikurinn er hafinn, bæði varðandi málsmeðferðina og varðandi skipunartíma dómara. Það sem gerir málsmeðferðina enn ósanngjarnari er það að bæði forseti landsdóms og sérstakur saksóknari Alþingis hafa verið með puttana í þessum tillöguflutningi. Á sama tíma þurfti hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra að ganga á milli Heródesar og Pílatusar til að fá sér skipaðan verjanda, sem er sjálfsagður réttur allra sakborninga í öllum réttarríkjum. Ekkert í tengslum við þetta frumvarp eða þennan málarekstur allan á nokkuð sameiginlegt með því hugtaki í íslenskum lögum og evrópskum sem kallað hefur verið „réttlát málsmeðferð fyrir dómi“ því að allt í tengslum við þetta mál er óréttlátt, virðulegi forseti.