139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[16:13]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landsdóm. Því hefur verið haldið fram af hálfu þeirra sem mæla fyrir þessu máli og hafa lýst stuðningi við það að með þessu frumvarpi og þessum breytingum á landsdómslögunum sé verið að tryggja réttláta málsmeðferð og standa vörð um réttaröryggi sakborningsins Geirs H. Haardes í þeim málaferlum sem fram undan eru fyrir landsdómi. Það þykir mér heldur síðbúin umhyggja frá því fólki sem tók ákvörðun um að ákæra þann ágæta mann og draga hann fyrir landsdóm.

Ég tel að það sé rangt að breyta landsdómslögunum eftir að ákveðið hefur verið að ákæra fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra. Ég mun ekki taka þátt í að breyta leikreglunum eftir að leikurinn er hafinn (Forseti hringir.) og segi því nei.