139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta sérkennilega mál er komið fram vegna einkaáhuga hæstv. forsætisráðherra. Það er alveg ljóst og hefur í raun verið upplýst í þessari umræðu að hæstv. forsætisráðherra hefur þvingað málið hingað inn eins og það er í pottinn búið. Hæstv. forsætisráðherra er á einkaferð með þetta mál. Þetta er ekki stjórnarfrumvarp eins og rækilega hefur komið fram. Það liggur t.d. fyrir að þegar málið var afgreitt út úr ríkisstjórn lýsti einn hæstv. ráðherra yfir andstöðu við það, annar hæstv. ráðherra treysti sér ekki til að standa að því. Síðan gerðist það sem er enn þá meiri tíðindi: Upplýst var í ræðu þingmanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þetta mál hefði verið afgreitt með almennum fyrirvara alls þingflokksins. Jafnframt var sagt að heimild hefði verið gefin til að leggja málið fram. Við sem erum eldri en tvævetur í stjórnmálum vitum nákvæmlega hvað það þýðir. Það þýðir að sá þingflokkur sem afgreiðir mál þannig frá sér lýsir hvorki yfir stuðningi við málið né heitir því að á bak við frumvarpið sé stuðningur þingflokksins við málið að lokum. Augljóst er að það er rangnefni í skjölum Alþingis, að um sé að ræða stjórnarfrumvarp. Þetta er þingmannafrumvarp þingflokks Samfylkingarinnar og á ekkert skylt við stjórnarfrumvarp.

Þetta frumvarp er tilraun til að færa vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Hæstv. forsætisráðherra iðkar þann leik þegar henni finnst nauðsynlegt að kenna frumvörp við afrakstur starfs þingmannanefndarinnar svokölluðu. Formaður þeirrar nefndar hefur komið inn í þessa umræðu og greint okkur frá því að það sé rangt. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Atli Gíslason, hefur upplýst Alþingi um að sú fullyrðing hæstv. forsætisráðherra standist ekki, frumvarpið sé hvorki í samræmi við vilja þingmannanefndarinnar né niðurstöðu hennar. Þess vegna er helsta forsendan fyrir þessu frumvarpi gjörsamlega brostin.

Við erum að tala um frumvarpið um Stjórnarráð Íslands. Stærsta breytingin eins og henni er lýst í athugasemdum við frumvarpið er að hverfa frá því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði frá árinu 1969, að kveða á um heiti ráðuneytanna í lögum. Í stað þess á að færa þetta vald til hæstv. forsætisráðherra. Það sjá allir, hvaða skoðun sem menn hafa annars á því fyrirkomulagi, að augljóslega er verið að færa valdið frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins, til hæstv. forsætisráðherra.

Lögin um Stjórnarráð Íslands voru sett árið 1969. Þá var verið að bregðast við aðstæðum sem menn sáu að voru ómögulegar. Stjórnarmyndanir fram að því höfðu m.a. einkennst af því að verið var að víla og díla og semja um skiptingu málaflokka og ráðuneyta milli flokka, jafnvel fram á síðustu stundu voru menn að ná sér í einhverja bita úr einstökum ráðuneytum til að koma saman ríkisstjórn. Þetta kölluðu menn hrossakaup. Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fór mjög rækilega yfir þetta í ræðu 4. júní 2007 þegar hann vakti athygli á því að það sem hefði knúið menn til að gera breytingarnar á stjórnarráðslögunum og búa til ný árið 1969 hefði verið að menn voru komnir út í algjörar ógöngur við að hringla með þetta skipulag án aðkomu Alþingis. Það var sem sagt verið að hverfa frá því. Nú hefur verið tekin ákvörðun af hálfu Samfylkingarinnar, ekki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um að hverfa til baka um 50 ár til þess ástands sem var áður en stjórnarráðslögin voru sett árið 1969. Þetta er undarlegt afturhvarf til fortíðarinnar. Þetta er sérkennilegt í ljósi þess að sitjandi ríkisstjórn talar um (Forseti hringir.) að skapa nýtt Ísland. Nú er verið að leggja drögin að gamla Íslandi, Íslandi hrossakaupa sem aldrei fyrr.