139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[16:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar eða kynningu á frumvarpinu. Það er ýmislegt sem kemur upp í hugann, ekki síst akkúrat það sem þetta mikla frumvarp gengur út á, þ.e. að taka út öll heiti á ráðuneytum, sem er meginefni þess, en með því er að mínu mati verið að hjúpa það þoku hver gerir hvað.

Í ræðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í gær um fyrra frumvarpið, sem tengist þessu máli með skýrum hætti, þ.e. um breytingar á Stjórnarráðinu, kom margt athyglisvert fram — hann er jú samráðherra hæstv. forsætisráðherra í ríkisstjórninni sem nú situr. Hæstv. ráðherrar lýsti því klárlega yfir að hann er á móti þeim frumvörpum sem verið er að leggja fram og sagði meðal annars að verið væri að færa vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins og taldi það ekki gott.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé sammála samráðherra sínum, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að verið sé að færa völd frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins og um leið að auka völd forsætisráðherra á hverjum tíma. — Nú vil ég taka fram að ég er vitanlega að horfa til framtíðar og tala um breytingar á þessum embættum út frá því.

Í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom einnig fram að verið væri að rýra formfestu með þessum frumvörpum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé sammála því.