139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[16:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ítrekað komið fram í máli mínu að ég tel að með þeim frumvörpum sem ég hef hér mælt fyrir sé verið að styrkja formfestu í ráðuneytum, verið að gera starfið sveigjanlegra og styrkja Stjórnarráðið með ýmsum hætti í samræmi við það sem fram hefur komið hjá rannsóknarnefnd Alþingis.

Sú breyting sem ég mæli hér fyrir er í „fyllra“ samræmi við 15. gr. stjórnarskrárinnar, en af því ákvæði verður ráðið að það sé hlutverk æðstu handhafa framkvæmdarvalds að ákveða verkaskiptingu á milli ráðherra. Þannig er stjórnarskráin og sú breyting sem nú er verið að gera er í miklu fyllra samræmi við það sem stjórnarskráin segir en verið hefur í framkvæmd um þetta mál. Ég tel því að þessi breyting sé algjörlega í samræmi við stjórnarskrána.

Ég vil nota þetta tækifæri, af því iðulega er verið að tala um að þetta frumvarp sé ekki stjórnarfrumvarp, og vísa til 25. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta, en þar segir:

„Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.“

Það þýðir að þau frumvörp sem lögð eru fram í ríkisstjórn fara til forseta til undirskriftar, til þingflokka og héðan inn í þingið og þó að ekki fylgi allir ráðherrar málinu er það engu að síður stjórnarfrumvarp.

Svo er ágætt að ítreka, um þessi frumvörp sem ég tel mjög til bóta fyrir starfshætti í Stjórnarráðinu, að til er forsetaúrskurður sem sú sem hér stendur gæti beitt í samráði við ríkisstjórn, forsetaúrskurður um (Forseti hringir.) að sameina iðnaðarráðuneytið nú þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ég held að það sé ágætt að hafa það í huga þegar menn ræða þessi mál og halda að þessi mál beinist eingöngu að sjávarútvegsráðherra (Forseti hringir.) sem er andsnúinn sameiningu þessara ráðuneyta.